Óheilbrigð
sambönd

Óheilbrigt samband

Stundum er erfitt að sjá muninn á heilbrigðu sambandi og óheilbrigðu. Ólíkt góðum samböndum sem ganga út á jafnrétti, virðingu og traust snúast þau óheilbrigðu um það að stjórna hinni manneskjunni. Á fyrstu stigum sambandsins finnst þér óheilbrigð hegðun kannski ekkert stórmál.

Sýna Meira

En afbrýðisemi, lítillækkandi ummæli, ráðríki, að hækka róminn og að stugga við eða hrinda eru allt óeðlilegar samskiptaleiðir sem notaðar eru til að ná stjórn yfir annarri manneskju og öðlast vald í sambandinu. Þetta eru oft fyrstu merki ofbeldissambands. Ofbeldi er alltaf val þess sem beitir því og það er aldrei neitt sem afsakar ofbeldi.                                                                                         

Ef þú heldur að þú sért mögulega í óheilbrigðu sambandi skaltu gera eitthvað í málinu sem fyrst. Hér eru nokkur atriði sem er gott að hafa í huga:

 • ‍Það breytist enginn nema hann langi til þess. Þú getur ekki breytt hegðun maka þíns ef hann sér ekki að hann er að gera eitthvað rangt.
 • Einbeittu þér að eigin þörfum. Þín heilsa skiptir máli. Vertu með vinum þínum, passaðu upp á næringu og svefn og ræktaðu áhugamálin þín. Ef þú finnur að sambandið er að taka úr þér allan mátt ættirðu að íhuga að slíta því.
 • Ræktaðu tengslanetið þitt. Passaðu að verja tíma með þínum nánustu, út af fyrir ykkur. Vertu til staðar fyrir vini þína og ræktaðu vináttuna á ykkar forsendum, ekki forsendum makans. Ofbeldisfólk reynir gjarnan að einangra makann frá vinum og vandamönnum til að ná betra taki á honum.
 • Íhugaðu að slíta sambandinu. Mundu að þú átt rétt á að upplifa öryggi og hlýju í þínu sambandi.

Þótt þú getir ekki breytt makanum þá geturðu breytt aðstæðunum. Íhugaðu að hætta með manneskjunni áður en ofbeldið versnar. Hvort sem þú ákveður að halda áfram í sambandinu eða fara úr því skaltu muna að setja eigið öryggi  í fyrsta sæti. Hafðu samband við vini eða vandamenn sem geta stutt þig í þinni ákvörðun eða leitaðu til fagaðila sem vinna með ofbeldi.

Sýna minna

Óheilbrigð hinsegin sambönd

Öll verðskuldum við að eiga í öruggu og heilbrigðu ástarsambandi. Margir halda að ofbeldi sé ekki til í hinsegin samböndum en það er því miður ekki rétt. 

Samkynhneigðir, tvíkynhneigðir, trans, kynsegin, intersex og allir aðrir sem skilgreina sig undir hinsegin regnhlífinni geta upplifað ofbeldi í samböndum rétt eins og fólk í gagnkynhneigðum samböndum. Birtingarmyndir ofbeldis í hinsegin samböndum geta hins vegar verið frábrugðnar því sem fyrirfinnst í gagnkynhneigðum samböndum.

SÝNA MEIRA

Hindranir fyrir ungt hinsegin fólk:

 

Skömm eða óþægindi. Kannski ertu enn að berjast við innri fordóma eða skammast þín fyrir kynhneigð, kynvitund eða kyneinkenni þín. Einstaklingurinn sem þú átt í ofbeldisfullu sambandi við gæti nýtt sér þessa skömm til þess að stjórna þér, til dæmis með því að uppnefna þig út frá kynhneigð þinni, kynvitund eða kyneinkennum og gera lítið úr upplifunum þínum eða beita þig þrýstingi í kynlífi með því að segja að eitthvað sé „eðlilegt“ í sambandi eins og ykkar, þótt þér líði ekki vel með það.

Ótti við að ekki verði tekið mark á þér. Þú gætir haft áhyggjur af því að fólk muni ekki trúa þér vegna fyrirfram gefinna hugmynda um hinsegin sambönd – svo sem að ofbeldi í hinsegin sambandi sé alltaf gagnkvæmt eða geti ekki átt sér stað í lesbísku sambandi, að aðeins stærri og sterkari aðilinn geti verið ofbeldisfullur eða að hinsegin sambönd séu óheilbrigð í sjálfu sér. Makinn gæti nýtt sér þennan ótta þinn og reynt að sannfæra þig um að enginn muni taka hinsegin manneskju alvarlega.

Ótti við hefnd, áreiti, höfnun eða einelti. Ef þú hefur ekki komið út úr skápnum gæti ofbeldisfull manneskja hótað að segja öðrum frá því að þú sért hinsegin. Þú gætir líka óttast að verða að skotmarki ef þú leitar þér hjálpar, verða að athlægi eða lenda í áreiti eða einelti. Ofbeldisfullur maki gæti líka beitt þessum ótta gegn þér til þess að viðhalda sambandinu.

Ótti við að koma óorði á hinsegin samfélagið. Þér gæti fundist að ef þú segir frá ofbeldinu líti það illa út fyrir hinsegin samfélagið í heild sinni. Hinsegin fólk verður enn fyrir miklum fordómum og hópurinn er því oft í viðkvæmri stöðu. Maki þinn gæti jafnvel notað þetta gegn þér og komið inn sektarkennd ef þú leitar þér hjálpar.

Togstreita. Í hinsegin samfélaginu er gjarnan lögð áhersla á að segja ekki í leyfisleysi frá hinseginleika annars fólks. Því gætirðu lent í togstreitu með að segja frá ofbeldinu ef maki þinn er ekki kominn út úr skápnum.

Samfélagsleg útilokun. Ef þú býrð í einangruðu umhverfi óttastu kannski útilokun frá samfélaginu ef upp kemst um hinseginleika þinn. Ofbeldismanneskja gæti notað smæð samfélagsins til að koma í veg fyrir að þú slítir sambandinu.

Útilokun úr vinahóp. Ef þú ert hluti af sama vinahóp og makinn óttastu kannski um stöðu þína innan hópsins ef þú segir frá ofbeldinu. Þú gætir óttast að vekja upp óþægilegar umræður í hópnum og efast um að þér verði trúað. Kannski óttastu jafnvel að splundra hópnum eða að þurfa að slíta samskiptum við ákveðna vini þína. Mundu að þú berð ekki ábyrgð á ofbeldinu heldur manneskjan sem beitir því – þess vegna er það ekki þér að kenna ef upp koma vandræði í vinahópnum, heldur ofbeldismanneskjunni.

Óháð öllum þeim hindrunum sem taldar eru upp hér að ofan átt þú skilið að finna til öryggis og upplifa heilbrigði í nánum samböndum. Stígamót bjóða upp á ókeypis viðtalstíma þar sem hægt er að ræða við óháðan aðila. Samtökin ‘78, hagsmunasamtök hinsegin fólks á Íslandi, bjóða einnig upp á ókeypis tíma hjá ráðgjöfum sem sérhæfa sig í hinsegin málefnum.

 

SÝNA MINNA

Af hverju beitir fólk ofbeldi?

Fólk sem beitir ofbeldi í samböndum sínum við aðra trúir því að það hafi rétt á að stjórna högum hins aðilans. Ofbeldisfólk telur sig oft vita best og því sé æskilegt að það sé við stjórnvölinn. Oft hefur þetta fólk ekki lært að taka ábyrgð á samskiptum sínum við aðra og telur jafnvel að sambönd eigi að byggjast á misrétti. Það skiptir samt ekki máli hver ástæðan er – hún afsakar ekki hegðun sem veldur öðrum skaða.

SÝNA MEIRA

Ofbeldi er lærð hegðun. Stundum elst fólk upp við ofbeldi og stundum heldur það að ofbeldishegðun sé réttlætanleg því það hefur lært hana af vinum eða þá að sú hegðun hefur talist eðlileg í kringum það. Hvar svo sem svona hegðun lærist er hún aldrei í lagi og aldrei réttlætanleg. Margir verða fyrir eða verða vitni að ofbeldi í uppvextinum en ákveða að beita ekki ofbeldi sjálfir – taka meðvitaða ákvörðun um að brjótast út úr óheilbrigða samskiptamynstrinu sem þeir lærðu í æsku. 

Mikilvægast er að muna að ofbeldi er alltaf val og að enginn neyðist til að beita því. Hver sem er getur beitt ofbeldi og hver sem er getur orðið fyrir því. Ofbeldi á sér stað óháð kyni, aldri, kynhneigð, fötlun, litarhafti, kynvitund, stétt, fjárhagslegum aðstæðum o.s.frv. Ef þú átt erfitt með heilbrigð samskipti og/eða beitir annað fólk ofbeldi til að finnast þú vera við stjórnvölinn skaltu prófa að lesa þér til um heilbrigð samskipti og einkenni ofbeldissambanda hér á síðunni. Það skiptir líka máli að leita sér aðstoðar til að brjótast út úr slíku hegðunarmynstri og geta átt í uppbyggilegum samskiptum

SÝNA MINNA

Tilfinningastjórnun

Í samböndum er mikilvægt að taka ábyrgð á eigin tilfinningum. Þegar við upplifum sterkar tilfinningar getum við átt það til að gleyma okkur og varpa ábyrgðinni á okkar tilfinningum yfir á aðra. Áður en þú bregst við sterkum tilfinningum er mikilvægt að spyrja sig hvaðan þær eru að koma, hvernig best er að koma þeim til skila á uppbyggilegan hátt og hverju þú viljir áorka með að ræða þær.

SÝNA MEIRA

Afbrýðissemi og meðvirkni eru dæmi um erfiðar tilfinningar sem geta komið upp í samböndum. Mikilvægt er að tækla þessar tilfinningar á uppbyggilegan hátt og bera ábyrgð á þeim.

Afbrýðisemi 

Öll upplifum við afbrýðisemi einhvern tíma á lífsleiðinni. Afbrýðisemi er eðlileg tilfinning og hluti af rófi mannlegra tilfinninga. Hún getur birst á mismunandi hátt við mismunandi aðstæður – þú getur fundið fyrir afbrýðisemi í garð fjölskyldumeðlima, systkina, vina, aðila úr skólanum þínum eða íþróttafélaginu, eða í parasambandi.

Dæmi um afbrýðisemi eru setningar á borð við:

 • Þú hefur alltaf tíma fyrir vinkonur þínar en ekki fyrir mig.
 • Já, ertu að fara að hitta gamla bekkinn þinn, verður fyrrverandi þar?
 • Þú ert með mér, af hverju varstu að tala við þessar stelpur?

Í sjónvarpsþáttum, kvikmyndum, tónlistarmyndböndum og textum er afbrýðisemi í sambandi oft sýnd í rómantísku ljósi, eins og hún undirstriki að við elskum manneskjuna sem við erum með. Þetta er óheilbrigð birtingarmynd rómantíkur, enda er afbrýðisemi neikvæð tilfinning og á ábyrgð þess sem upplifir hana. Þessi tilfinning getur haft skaðleg áhrif á sambandið. 

Það er mikilvægt að átta sig á því hvaðan afbrýðisemin kemur. Upplifirðu óöryggi? Sorg? Reiði? Sjálfshatur? Óttastu höfnun? Að verða útundan? Að missa manneskju sem skiptir þig máli? Afbrýðisemi sprettur gjarnan af óöryggi, hvort sem það er óöryggi í parasambandi, vináttu eða samskiptum milli fjölskyldumeðlima, og hún beinist gjarnan að þeim aðila sem við erum óörugg gagnvart.

Afbrýðisemi getur einnig sprottið af einhverju allt öðru. Kannski finnurðu fyrir óöryggi og það brýst út í samskiptum við aðra. Það skiptir máli að gera sér grein fyrir því að afbrýðisemi er þín eigin tilfinning og því á þinni ábyrgð en ekki annarra. Þú berð ábyrgð á því að skilja hver rótin er og takast á við þær tilfinningar sem þú ert að upplifa.

Það er hægt að takast á við afbrýðisemi. Hér eru nokkur ráð um það sem þú getur gert:

 • Stoppaðu. Ef þú finnur fyrir mikilli afbrýðisemi í tilteknum aðstæðum er gott að fara úr aðstæðunum og gefa þér pláss til að velta því fyrir þér hvaðan tilfinningin kemur.
 • Hugsaðu. Veltu fyrir þér hvaðan afbrýðisemin er sprottin. Þegar þú hefur einhverja hugmynd um það skaltu íhuga hvernig þú getur rætt málið við makann.
 • Ræddu málið. Talaðu við makann, segðu að þú hafir fundið fyrir afbrýðisemi í ákveðnum aðstæðum og útskýrðu hvers vegna þú heldur að það hafi gerst. Ef það spratt til dæmis af óöryggi sem þú upplifir í sambandinu er gott að ræða það. Veltið því fyrir ykkur hvernig hægt sé að vinna úr þessum tilfinningum. Mundu að sýna virðingu í svona samtali.
 • Taktu ábyrgð. Ef þér tekst ekki að leysa úr þessum tilfinningum getur verið gott að tala við óháðan aðila. Leitaðu þér aðstoðar hjá sálfræðingi eða ráðgjafa sem getur aðstoðað þig við að takast á við afbrýðisemina.

 

Afbrýðisemi er stundum notuð sem stjórnunartæki í samböndum, til að stýra klæðnaði, hegðun og samskiptum hins aðilans. Slík stjórnun er ofbeldi sem getur skaðað hina manneskjuna. Taktu ábyrgð á eigin afbrýðisemi og leystu úr henni á farsælan máta. Leitaðu þér hjálpar ef þú átt í erfiðleikum með að takast á við þessar tilfinningar. 

Meðvirkni

Hefur þú heyrt minnst á meðvirkni? Hvernig kemur meðvirkni fram í samböndum og hvað ber að varast?

Ef þú hugsar allt út frá einhverjum öðrum en þér í sambandi er það merki um að eitthvað sé að. Oftast er þetta hugarástand kallað meðvirkni en meðvirkni er þegar maður reynir stöðugt að breyta, laga eða stjórna hegðun maka eða annars nákomins aðila. Oft finna makar ofbeldisfullra einstaklinga fyrir meðvirkni og öll tilvera þeirra fer að snúast um að reyna að haga sér  „rétt”, til að reita makann ekki til reiði eða valda honum vonbrigðum. Þetta gildir ekki bara um sambönd þar sem líkamlegu ofbeldi er beitt. Meðvirkni er algengur og fyrirferðarmikill þáttur í óheilbrigðum og ofbeldisfullum samböndum.

Það er til marks um meðvirkni að:

 • Hamingja og lífsfylling ráðist af hinum aðilanum
 • Hylma yfir vandamál maka síns og afsaka þau
 • Skammast sín fyrir hegðun makans
 • Reyna að stjórna hegðun makans til þess að leysa vandamálið
 • Kenna sér um hegðun makans og erfiðleika í sambandinu
 • Reyna að „laga” makann

Ef þú kannast við eitthvað af ofantöldu er gott að hafa í huga að:

 • Þú getur bara stjórnað þínum eigin hugsunum og gjörðum
 • Þú berð ekki ábyrgð á hegðun annarra
 • Ef þú verður fyrir ofbeldi er það aldrei þér að kenna
 • Þú þarft að sætta þig við að geta ekki breytt öðrum
 • Þú átt rétt á að setja þína eigin vellíðan í fyrsta sæti

Margar ástæður geta valdið því að fólk þróar með sér meðvirkni. Oftast er talað um meðvirkni þegar fólk á í tilfinningalegu sambandi við vímuefnaneytanda, en meðvirkni getur sprottið upp í ýmsum öðrum aðstæðum,  til að mynda í óheilbrigðu sambandi þar sem andlegu og/eða líkamlegu ofbeldi er beitt.

Sá sem er meðvirkur reynir að stjórna eða taka ábyrgð á gjörðum annarra. Með því hjálpar sá meðvirki hinum aðilanum að forðast að takast á við vandamálið með beinum hætti. Meðvirkni kemur stundum til af því að maður þráir að halda stöðugleika í samskiptum, jafnvel þótt sambandið sé óheilbrigt. Meðvirk manneskja er í grunninn tilfinningalega háð öðrum einstaklingi. Slíkt getur haft mikil áhrif á sjálfsmyndina og því ástæða til að endurskoða sambandið og mögulega leita sér hjálpar.

 

SÝNA MINNA

Áfengi, vímuefni og ofbeldi

Þú berð ábyrgð á hegðun þinni undir áhrifum. Áfengi og vímuefni hafa áhrif á dómgreind og hegðun manneskju en þau eru ekki ástæða ofbeldis. Það að vera undir áhrifum afsakar ekki ofbeldisfulla hegðun eða gjörðir sem skaða aðra. Því er mikilvægt að þekkja áhrifin sem vímuefni hafa á þig og haga neyslunni eftir því.

SÝNA MEIRA

Til dæmis geta vímuefni og áfengi orðið til þess að þú:

 • Missir stjórn á skapi þínu
 • Virðir ekki mörk annarra
 • Getir ekki fullvissað þig um samþykki annarra
 • Eigir erfiðara með að meðtaka væntingar og óskir annarra
 • Teljir þig eiga rétt á einhverju, t.d. að önnur manneskja sofi hjá þér ef hún hefur sýnt áhuga 

Aðrir áhættuþættir til að hafa í huga:

 • Tilfinningar geta espast upp og sveiflast meira en vanalega
 • Slæmar aðstæður geta auðveldlega farið úr böndunum

Ef þú átt í vandræðum með vímuefnaneyslu skaltu ekki skammast þín fyrir það. Það er hjálp í boði! Hafðu samband við SÁÁ, AA eða fíknigeðdeild LSH ef þú átt erfitt með að stjórna skapi þínu þegar þú ert undir áhrifum og vilt breyta því. Mikilvægt er að axla ábyrgð á eigin hegðun og stuðla að breytingum.

„Ég get ekkert að þessu gert!”

Ef þú átt erfitt með að stjórna skapi þínu þegar þú ert undir áhrifum og átt til að fara yfir mörk annarra verður þú að taka ábyrgð á eigin hegðun. Ef einhver bendir þér á að hegðun þín sé óæskileg eða skaði fólkið í kringum þig skaltu varast þessar algengu afsakanir:

 • „Ég meinti ekki það sem ég sagði! Ég var að drekka!“
 • „Ég myndi aldrei beita þig ofbeldi þegar ég er edrú.“
 • „Áfengi breytir mér í aðra manneskju. Ég er ekki svona í alvörunni.“

Það er mikilvægt að muna að þótt þú sért undir áhrifum endurspegla gjörðir þínar þig sem einstakling. Ef þú sýnir ofbeldisfulla hegðun undir áhrifum er oft tímaspursmál hvenær þú grípur til ofbeldis án þess að vera undir áhrifum. Það hjálpar að þekkja mörkin milli heilbrigðra og óheilbrigðra samskipta því þannig geturðu stuðlað að uppbyggilegum samskiptum í kringum þig - hvort sem um er að ræða milli vina, í parasambandi, við ókunnuga eða innan fjölskyldunnar.

 

SÝNA MINNA

Stafræn skilaboð og samskipti

Smáskilaboð og samfélagsmiðlar verða sífellt vinsælli leiðir til að eiga í samskiptum við fjölskyldu, vini og maka. Þó að samfélagsmiðlar séu skemmtilegir og þægilegir í hversdagslegum samskiptum er gott að hafa í huga mörkin sín og annarra þegar kemur að stafrænum samskiptum.

SÝNA MEIRA

Að senda ítrekuð skilaboð

Auðvitað viljum við öll heyra frá þeim sem við erum í sambandi við, hvernig þau hafi það, hvað sé verið að gera og svo framvegis. En stafræn samskipti eru eins og öll önnur samskipti – þau þurfa að byggjast á virðingu og trausti. Þú átt ekki heimtingu á svari innan einhvers ákveðins tíma né geturðu gert kröfu um að hinn aðilinn upplýsi þig sífellt um ferðir sínar og félagsskap. Að senda makanum endalaus skilaboð getur verið til marks um stjórnsemi, yfirgang og skort á trausti – ekki um ást og umhyggju.

Sexting og kynferðislegar myndir

Þegar kemur að sexting og að senda kynferðislegar myndir, er mikilvægt að gera sér grein fyrir hvar mörkin þín og hinnar manneskjunnar liggja. Það er mikilvægt að vera á sömu blaðsíðu þegar kemur að því að senda kynferðislegar myndir og skilaboð og virða mörk annarra. Varastu að beita þrýstingi eða að senda efni að óvöru. Hin manneskjan í sambandinu tekur ákvörðun um að taka þátt í kynferðislegum athöfnum með þér – það á líka við um kynferðislegar myndir, sexting eða önnur stafræn, kynferðisleg samskipti. Þótt þú viljir eiga í slíkum samskiptum verðurðu að virða rétt hinnar manneskjunnar til að taka eigin ákvarðanir. Ekki þrýsta á hinn aðilann að senda kynferðisleg skilaboð og hótaðu aldrei að birta myndir eða skilaboð sem manneskja hefur sent þér, því það er ofbeldi. Að dreifa nektarmyndum eða öðrum kynferðislegum skilaboðum án samþykkis er líka ofbeldi og getur varðað við lög.

Að lesa skilaboð annarra

Heilbrigð sambönd byggjast á trausti, ekki afbrýðisemi. Virtu einkalíf maka þíns – honum er frjálst að tala við hvern þann sem hann vill eiga í samskiptum við. Ekki skoða síma hans án leyfis eða skipta þér af því við hverja hann talar. Slík hegðun er til marks um stjórnun og jafnvel ofbeldi.

Hótanir í gegnum skilaboð

Að senda hótanir er ofbeldi og varðar við lög. Traust, virðing og væntumþykja einkenna heilbrigð sambönd. Mundu að sýna virðingu í samskiptum. Ef þú finnur fyrir afbrýðisemi skaltu íhuga að ræða málið á yfirvegaðan hátt við maka þinn svo hægt sé að leita að lausna í sameiningu.

SÝNA MINNA

Af hverju fer fólk ekki úr ofbeldisfullum samböndum?

Fólk sem hefur aldrei verið í ofbeldisfullu sambandi veltir því gjarnan fyrir sér hvers vegna þolendur ofbeldis hætta ekki bara með gerandanum. Sambandsslit geta hins vegar verið flóknari en þau virðast og það eru margar ástæður fyrir því að sumt fólk heldur áfram í ofbeldissambandi. Ef þú átt vin sem er í ofbeldisfullu eða óheilbrigðu sambandi skaltu veita vininum styrk með því að sýna því skilning að hann vilji ekki eða geti ekki slitið sambandinu.

SÝNA MEIRA

Tilfinningar

 • Ótti: Vinkona þín kann að óttast það sem gerist ef hún bindur endi á sambandið. Ef henni hefur verið hótað af makanum eða fjölskyldu hans og vinum gæti hún verið óörugg um að slíta sambandinu. 
 • Trúir því að ofbeldi sé eðlilegt: Vinur þinn gæti hafa alist upp við ofbeldissamband foreldra eða annarra náinna ættingja og kann því ekki að bera kennsl á óheilbrigt samband.
 • Skömm: Vinkonu þinni finnst líklega erfitt að viðurkenna að hún hafi orðið fyrir ofbeldi. Henni gæti jafnvel fundist hún hafa gert eitthvað rangt með því að stofna til sambands við ofbeldisfulla manneskju. Hún gæti einnig haft áhyggjur af því að fjölskylda hennar og vinir fordæmi hana fyrir það.
 • Ýtt út úr skápnum: Ef vinur þinn er hinsegin og ekki kominn út úr skápnum gæti maki hans hafa hótað að segja frá því ef hann slítur sambandinu. Að sagt sé frá hinseginleika gegn vilja viðkomandi getur verið ógnvekjandi fyrir ungt fólk sem er að uppgötva kynvitund, kyneinkenni og/eða kynhneigð sína.
 • Lágt sjálfstraust: Ef maki vinkonu þinnar gerir stöðugt lítið úr henni og kennir henni um ofbeldið er auðvelt fyrir hana að trúa þessum fullyrðingum og halda að ofbeldið sé henni sjálfri að kenna.
 • Ást: Vinur þinn gæti viðhaldið ofbeldisfullu sambandi í þeirri von að makinn breytist til hins betra og láti af ofbeldinu. Ef sá sem maður elskar segist ætla að breyta hátterni sínu og verða betri manneskja vill maður trúa því að það sé satt. Það getur verið að vinur þinn vilji bara binda endi á ofbeldið sem slíkt en ekki sambandið í heild.

Þrýstingur

 • Hópþrýstingur: Ef ofbeldisfullur maki er vinsæll getur verið erfitt fyrir þolandann að segja vinum sínum frá, af ótta við að enginn muni trúa henni eða að fólk komi frekar til með að trúa ofbeldismanninum.-       

Vantraust á fullorðnu fólki og yfirvöldum    

 • „Þetta er bara hvolpaást“: Oft tekur fullorðið fólk ekki mark á ástföngnum unglingum. Þess vegna gæti vinur þinn haldið að engir fullorðnir tækju það alvarlega ef hann segði frá ofbeldinu.
 • Vantraust á kerfinu: Mörg ungmenni treysta ekki opinberum aðilum og trúa því ekki að þau geti sótt hjálp þangað, svo þau sleppa því að segja frá ofbeldi.

Að vera háður gerandanum    

 • Fjárhagsleg tengsl: Vinur þinn gæti verið fjárhagslega háður manneskjunni sem beitir hann ofbeldi, sem gæti valdið því að honum þyki ómögulegt að losna úr sambandinu.
 • Enginn samastaður: Jafnvel þótt vinkonu þína langi til að slíta sambandinu gæti henni fundist sem svo að hún ætti ekki í nein hús að venda. Þetta á auðvitað sérstaklega við ef parið er í sambúð.
 • Fötlun/örorka: Ef vinur þinn reiðir sig líkamlega á makann, t.d. við athafnir daglegs lífs, gæti hann upplifað að velferð hans sé undir makanum komin. Slíkt getur valdið því að vinurinn treystir sér ekki til að binda endi á sambandið, jafnvel þótt um ofbeldissamband sé að ræða.

Hvað get ég gert?

Ef vinur þinn eða fjölskyldumeðlimur er fastur í ofbeldisfullu sambandi er mikilvægast að styðja við bakið á viðkomandi og hlusta. Ekki dæma! Það getur verið mjög erfitt að yfirgefa óheilbrigt eða ofbeldisfullt samband.

Reyndu að koma vinkonu þinni í skilning um að hún hafi úr fleiri kostum að velja. Bentu henni á að kanna vefsíður á borð við fræðslusíðuna okkar, jafnvel þótt hún haldi áfram í ofbeldisfullu sambandi. Slíkar upplýsingar gætu hjálpað þótt svo virðist kannski ekki í fyrstu.

SÝNA MINNA

Aðstandendur

Hefurðu áhyggjur af því að einhver þér náinn gæti verið í ofbeldissambandi? Eða að einhver náinn þér er gerandi í ofbeldissambandi? Gott er að þekkja hættumerki óheilbrigðra sambanda og hafa þau á bak við eyrað – bæði þegar kemur að þeim sem standa okkur nærri og að okkar eigin samböndum.

SÝNA MEIRA

Hvað ef
ástvinur minn er í óheilbrigði sambandi?

Ofbeldi
í samböndum á sér ýmsar birtingarmyndir. Það einskorðast ekki við glóðarauga og
brotin bein. Hvernig veistu hvort um óheilbrigt samband er að ræða? Hlustaðu á
innsæið. Ef þú hefur áhyggjur af ástvini er það varla að ástæðulausu. Hér eru
nokkrir punktar til að hjálpa þér að átta þig betur á því sem gæti verið í
gangi:

Hver eru hættumerki óheilbrigða
sambanda?

 • Makinn
  uppnefnir eða gerir lítið úr ástvini þínum fyrir framan annað fólk
 • Makinn
  verður mjög afbrýðisamur ef ástvinur þinn talar við annað fólk
 • Ástvinur
  þinn afsakar hegðun makans við fólkið í kringum sig
 • Ástvinur
  þinn hættir oft við ykkar plön án þess að gefa fyrir því trúverðuga ástæðu
 • Þegar þið verjið
  tíma saman er makinn í stöðugu sambandi við ástvin þinn í gegnum netið eða síma
  til að athuga hvað þið séuð að gera, með hverjum þið eruð eða hvar þið eruð
 • Þú hefur
  orðið vitni að því þegar rifrildi ástvinar þíns og makans fara úr böndunum,
  t.d. þannig að hlutum er kastað
 • Makinn
  gerir lítið úr vinasamböndum ástvinar þíns, uppnefnir vinina og talar niðrandi
  um þá
 • Ástvinur
  þinn hefur stöðugar áhyggjur af því að makinn komist í uppnám yfir einhverju
 • Ástvinur
  þinn dregur sig meira og meira út úr félagslífinu og/eða samskiptum við þig og
  annað fólk í kringum hann
 • Ástvinur
  þinn hefur minni áhuga á að hugsa um sjálfan sig, námið sitt og/eða áhugamál,
  sem er merki um undirliggjandi þunglyndi
 • Ástvinur
  þinn er með áverka sem hann getur ekki útskýrt, eða útskýringarnar eru
  ruglingslegar og virðast ekki eiga við rök að styðjast

Hvað get ég gert
ef ástvinur minn er í óheilbrigðu sambandi?

Það getur verið erfitt að horfa upp á einhvern sem manni
þykir vænt um eiga í óheilbrigðu sambandi. Oft líður manni eins og ekkert sé
hægt að gera. Hafðu alltaf hugfast að ákvörðunin um að slíta sambandinu liggur
hjá ástvini þínum. Þú getur ekki tekið þá ákvörðun fyrir aðra manneskju. Það
sem þú getur gert er að vera til staðar fyrir ástvin þinn þegar hann þarf á þér
að halda.

Hvað þarf ég að
hafa í huga?

Óheilbrigð samskipti og ofbeldi geta brenglað hugsun fólks.
Ef ástvinur eða einhver annar nákominn þér á í óheilbrigðu eða ofbeldisfullu
sambandi er líklegt að viðkomandi sjái aðstæðurnar í allt öðru ljósi en þú.
Makinn gæti hafa talið ástvini þínum trú um að ofbeldið væri honum sjálfum að
kenna. Þótt ástvinur þinn átti sig á að sambandið er óheilbrigt eða
ofbeldisfullt þarf ekki að vera að hann slíti því.

Ef ástvinur þinn ákveður að fara úr sambandinu getur hann
upplifað einsemd og depurð í kjölfarið. Það gæti jafnvel gerst að hann leiti
aftur til makans sem beitti ofbeldi, jafnvel þótt hann sé meðvitaður um að
sambandið sé ekki hollt. Hafðu í huga að það getur reynst fólki erfitt að tjá
sig um svona aðstæður og eigin líðan. Reyndu að vera til staðar eftir bestu
getu. 

Hér eru nokkur dæmi um það hvernig
þú getur verið til staðar:

 • Hafðu samband og láttu vita að þú
  sért til staðar. Komdu því til skila að þú hafir áhyggjur og sért til í að
  hjálpa ef þess þarf.
 • Sýndu stuðning með því að hlusta. Viðurkenndu
  tilfinningar ástvinar þíns og sýndu ákvörðunum hans virðingu.
 • Hjálpaðu ástvini þínum að skilja að
  ofbeldið er EKKI honum að kenna. Allir eiga rétt á að líða vel í sínu sambandi.
 • Einbeittu þér að þolandanum, ekki
  makanum sem beitir ofbeldinu. Þótt ástvinur þinn ákveði að halda áfram
  sambandinu er mikilvægt að honum finnist hann geta rætt aðstæðurnar við þig.
 • Bentu ástvini þínum á hvert hann getur leitað.
  Til dæmis er hægt að benda á þessa síðu eða að hafa samband við Stígamót eða önnur úrræði fyrir
  þolendur ofbeldis.
 • Vertu til staðar ef ástvinur þinn
  hættir með makanum.
 • Ef þér líður eins og ekkert sem þú gerir hafi
  áhrif skaltu muna að oft nægir að ástvinur þinn viti að þú ert til staðar.
 • Ekki hafa beint samband við makann sem beitir
  ofbeldi eða skrifa um samband þeirra á netinu. Það getur haft neikvæð áhrif á
  ástvin þinn sem er ennþá fastur í aðstæðunum.
 • Hafðu í huga að það að tagga aðila í stöðuuppfærslu eða tvítum
  gæti einnig skapað vandamál fyrir aðila sem forðast vilja ofbeldisaðila - þá
  sérstaklega ef þú gefur upp staðsetningu þeirra.

Settu þig í fyrsta
sæti. 

Þú
skiptir meginmáli og átt alltaf að skipa fyrsta sætið í þinni eigin
forgangsröð. Heilsa þín og líðan skiptir mestu. Ef samband ástvinar hefur
yfirþyrmandi áhrif á þig sem aðstandanda, t.d. ef ofbeldið fer að beinast að
þér og þú sérð ekki fram á breytingar, er mikilvægt að þú setjir mörk varðandi
samskipti við parið eða slítir mögulega samskiptunum. 

Ástvinur minn er gerandi í ofbeldissambandi

Það er erfitt að horfa upp á það þegar einhver
sem þér þykir vænt um skaðar fólkið í kringum sig. Þú gætir jafnvel átt erfitt
með að viðurkenna að manneskjan beiti ofbeldi eða eigi í óheilbrigðum
samskiptum. Það er samt þannig að hlutleysi hjálpar aldrei brotaþola, heldur
styður gerandann.

Hvað get ég gert?

Eina leiðin til að gera jákvæðar
breytingar á hegðunarmynstri í ofbeldissambandi er að gerandinn taki ábyrgð á
gjörðum sínum og hegðun. Þú getur hvatt manneskjuna til að átta sig og breyta
samskiptamynstri sínu. Það getur reynst erfitt fyrir þann sem beitir ofbeldi að
viðurkenna að það er ákvörðun og því beri hann ábyrgð á því. Ástvinur í þeirri
stöðu gæti leitað til þín í von um að réttlæta hegðun sína – en mundu að
ofbeldi þrífst á stjórnun. Ekki styðja við ofbeldið eða afsaka þessa hegðun á
neinn hátt. Það þýðir ekki að þú snúist gegn ástvini þínum heldur ertu að
hjálpa honum að mynda heilbrigðara samband.

 • Lærðu að þekkja hættumerki ofbeldissvo þú getir tekið eftir þeim í samskiptum ástvina þinna.
 • Ástvinur þinn gæti reynt að kenna maka sínum um ofbeldið. Ekki taka
  þátt í því að réttlæta eða afsaka ofbeldi.
 • Reyndu að hjálpa ástvini þínum að sjá að hegðunin er skaðleg og skilja
  hvernig þolandanum líður. Ef ástvinurinn reynir að gera lítið úr hegðun sinni
  eða tilfinningum þolandans, stattu þá með þolandanum. Þögn og hlutleysi er það
  sama og að standa með gerandanum.
 • Ef þú heyrir af ofbeldi eða annarri óæskilegri hegðun hjá ástvini
  skaltu ekki hunsa það. Ef þú og aðrir í lífi gerandans standið þegjandi hjá
  hjálpar það honum að réttlæta hegðun sína fyrir sjálfum sér.
 • Ábyrgðin er hjá gerandanum. Hann verður að taka ábyrgð á hegðun sinni
  og gjörðum og leita sér hjálpar til að takast á við sitt óheilbrigða
  samskiptamynstur.
 • Ef gerandinn ákveður að leita sér hjálpar skaltu vera til staðar ef þú
  treystir þér til þess. Það getur reynst erfitt að uppræta samskiptamynstur sem
  fólk hefur vanist árum saman.
 • Minntu ástvin þinn á að með því að breyta hegðun sinni stuðli hann að
  heilbrigðara sambandi við sjálfan sig og aðra.
 • Vertu fyrirmynd með því að leggja áherslu á jákvæð, uppbyggileg og
  heilbrigð samskipti í kringum þig.
SÝNA MINNA