Kynlíf og
klám

Kynlíf

Kynlíf gengur út á virðingu og traust. Að vera góður í rúminu snýst ekki um hversu margar stellingar þú getur farið í eða hversu lengi þú endist. Að vera góður í rúminu snýst um samskipti, traust, væntumþykju og virðingu.

sýna meira

Par í heilbrigðu sambandi getur talað saman í kynlífi og virt mörk hvort annars og tilfinningar. Þér ætti aldrei að líða eins og þú þurfir að stunda kynlíf til að makinn hætti ekki með þér. Það er allt í lagi að langa ekki að ganga lengra en t.d. að kyssast og kúra. Það er algjörlega þitt val og öðrum ber að virða það.

Þú stjórnar því hvort og hvenær þú vilt stunda kynlíf með annarri manneskju. Í heilbrigðu sambandi geturðu sagt makanum að þig langi ekki að stunda kynlíf þá stundina og makinn virðir þá ákvörðun, jafnvel þótt hann/hana/háni langi til þess.

Ef þú ert að velta því fyrir þér hvenær þú vilt byrja að stunda kynlíf er fínt að hafa þetta í huga:

 • Þetta er þín ákvörðun og enginn hefur rétt á að pressa á þig um að gera eitthvað sem þú vilt ekki.
 • Ef þér líður vel með það getur verið gott að ráðfæra sig um varnir við einhvern fullorðinn, t.d. foreldri, hjúkrunarfræðing eða kennara. Einnig er hægt að hafa samband við Ástráð, félag læknanema við Háskóla Íslands sem fer með kynlífsfræðslu um landið, eða lesa sér til um forvarnir og smitsjúkdóma á heimasíðu þeirra.
 • Sýndu þér og makanum hreinskilni. Það er allt í lagi að finnast maður ekki tilbúinn. Hinni manneskjunni ber að virða það.
 • Þú mátt hætta við á hvaða tímapunkti sem er. Ef eitthvað hræðir þig eða lætur þér líða óþægilega skaltu hlusta á eigin sannfæringu og láta hinn aðilann vita að þú viljir hætta. Sömuleiðis ber þér að virða það ef hinn aðilinn vill hætta, hvenær sem er.
 • Þú átt rétt á að tala opinskátt um hvernig þér líður, hvað lætur þér líða óþægilega og hvað þú vilt og vilt ekki gera í kynlífi.
 • Ef hin manneskjan hótar þér eða pressar á þig að stunda kynlíf getur það verið merki um að sambandið sé óheilbrigt. Þú átt skilið virðingu og traust.
 • Það skiptir ekki máli hversu lengi þið hafið verið saman eða hvað þið hafið gert áður – þú átt alltaf rétt á því að neita að gera eitthvað sem þig langar ekki til, á hvaða tímapunkti sem er, og þú þarft ekki að gefa frekari ástæðu fyrir því.
 • Hinum aðilanum ber að hlusta á það sem þú segir þegar þið stundið kynlíf. Ef þú hefur ekki áhuga á að gera eitthvað tiltekið í rúminu eða stunda kynlíf yfirhöfuð ber manneskjunni að virða það. Ef hún/hann/hán heldur áfram að þrýsta á þig er það merki um misnotkun.
 • Þú ræður hver fær að snerta og tala við þig á kynferðislegan hátt. Enginn hefur leyfi til að brjóta á ákvörðunarrétti þínum yfir eigin líkama.

Af hverju er þetta svona flókið? 

Hvort sem um er að ræða óformlegt samband eins og milli bólfélaga eða alvarlegt samband líkt og ástarsamband getur kynlíf ýtt undir sterkar tilfinningar gagnvart hinni manneskjunni, enda tengir kynlíf fólk á sérstakan hátt. Oft er þessi tenging yndisleg og veldur vellíðan, en stundum skapar hún erfiðar aðstæður. Það er mjög mikilvægt að þú sért til í að stunda kynlíf og að þér líði vel með það. Þá skiptir engu máli hvort um er að ræða fyrsta skiptið með nýrri manneskju eða þúsundasta skiptið með makanum.

Jafnvel þótt þú sért í heilbrigðu sambandi geta gildi fólks og skilningur á kynlífi stangast á. Sumum finnst eitthvað eðlilegt sem annar gæti ekki hugsað sér að gera í rúminu.

Hér eru nokkur dæmi um ýmislegt sem gæti komið upp á og þarf að ræða:

 • ‍Foreldrar þínir vilja ekki að þú deitir og alls ekki að þú stundir kynlíf.  Þú óttast að fjölskyldan muni komast að þessu og finnst þú vera að fara á bak við þau.
 • Þú ert hinsegin en hefur ekki komið út úr skápnum. Þú óttast að það muni fréttast og berast til fjölskyldu þinnar og vina. Þú ert ekki til í að koma út strax.
 • Þú óttast að ef þú sefur hjá manneskjunni muni það fréttast út um allan skóla, til vina þinnar og jafnvel fjölskyldunnar, og kvíðir viðbrögðunum.

Þér gæti liðið eins og þú þurfir að velja á milli þess sem þig langar að gera og þess sem aðrir búast við af þér. Mundu að þú ræður yfir þér og tekur þær ákvarðanir sem þú vilt, út frá eigin sannfæringu.

Talið saman í rúminu! 

Það veit enginn nema þú hvað er í gangi í kollinum á þér. Ef þér liggur eitthvað á hjarta en þegir yfir því þarf hin manneskjan að giska á hvað þú ert að hugsa. Eins og við höfum nefnt svo oft áður (enda sjúklega mikilvægt!) eru heilbrigð samskipti lykilatriði í heilbrigðu sambandi. Því er ekkert öðruvísi farið í kynlífi. Lykilinn að góðu kynlífi er að báðir aðilar segi hvernig þeim finnst gott að láta koma við sig, sýni og leiðbeini hinum aðilanum. Það er mikilvægt að geta talað opinskátt um hvernig kynlíf ykkur langar til að stunda hverju sinni. Hvettu hina manneskjuna einnig til að vera opin með það hvernig henni líður í sambandi við líkama sinn og kynferðislega snertingu. Að tala saman í rúminu einskorðast ekki við orð, heldur felur það líka í sér að fylgjast með líkamstjáningu hins aðilans til að vera viss um að honum líði vel og hann sé þátttakandi í því sem verið er að gera.

Að læra að hlusta er líka mjög mikilvægt, ef ekki ennþá mikilvægara. Með því að hlusta og meðtaka það sem hin manneskjan segir sýnirðu að þér sé treystandi og að þér þyki vænt um manneskjuna. Þá er einnig líklegra að hinni manneskjunni líði vel með að spyrja þig á móti. Á þessum grundvelli myndast traust í kynlífi, þið verðið nánari og ánægjan af kynlífi eykst.

Stattu með þér – brjóttu staðalímyndina Stundum þegar fólki líður óþægilega eða það er í aðstæðum sem það er ekki vant bregst það við með því að fara eftir fyrirframgefnum hugmyndum um hvernig við eigum að hegða okkur. Gott dæmi um þetta er strákur sem vill vera töff og heldur að hann eigi að sofa hjá fullt af fólki og vera alveg sama um það. Á móti gæti stelpa haldið að hún sé drusla ef hún sefur hjá „of” mörgum og að hún eigi að vera „hard to get“. Svona hegðun köllum við að falla að staðalímyndinni. Staðalímyndir gera okkur erfiðara um vik að haga okkur eins og okkur langar til, koma í veg fyrir að við tölum saman um það sem okkur finnst gott og gaman í kynlífi og geta gert okkur óörugg gagnvart öðru fólki.

Kynlíf verður betra eftir því sem við tölum meira saman og sýnum hinum aðilanum hvernig við viljum að komið sé fram við okkur. Gott getur verið að íhuga hvaða staðalímyndum er haldið að okkur og hvernig þær hafa áhrif á líf okkar. Ef þið eruð ósammála einhverri staðalímynd skuluð þið gagnrýna hana og finna einstakling sem er tilbúinn til að koma fram við ykkur af virðingu og sjá ykkur sem þá manneskju sem þið eruð, en ekki eins og þið „ættuð” að vera.

Hvað ef mig langar ekki til að stunda kynlíf? Hvort sem þig skortir áhuga á kynlífi eða þú upplifir þig á rófi eikynhneigðar er allt í lagi að langa ekki til að stunda kynlíf. Sumt fólk hefur lítinn sem engan áhuga á kynlífi, öðrum finnst þau ekki tilbúin og enn aðra langar að bíða eftir einhverri sérstakri manneskju til að vera með. Hver sem ástæðan er þá hefurðu þú rétt á því að stunda ekki kynlíf og þarft ekki að afsaka það. Ef þú hefur áhuga á að lesa þér til um eikynhneigð er fróðleik að finna hér:  https://otila.is/hinsegin-regnhlifin/kynhneigd/eikynhneigd/

Hvað er kynferðisofbeldi? 

Kynferðislegt ofbeldi og/eða áreitni er öll óumbeðin kynferðisleg snerting. Ef einhver þrýstir á aðra manneskju um að gera eitthvað sem hana/háni/honum langar ekki til eða hefur ekki gefið leyfi fyrir er það kynferðislegt ofbeldi og misnotkun. Enginn ætti nokkurn tíma að snerta þig nema þú hafir gefið leyfi fyrir því, hvort sem þú ert edrú, undir áhrifum áfengis, meðvitundarlaus af drykkju, vakandi eða sofandi. Kynferðislegt ofbeldi er refsivert samkvæmt lögum.

sýna minna

Samþykki

Samþykki er gríðarlega mikilvægt en það er alls ekki talað nógu mikið um það – svo það er skiljanlegt að hugtakið flækist fyrir fólki.

Samþykki snýst um að tala saman um það sem við viljum, tjá okkur um það sem okkur langar til að gera og hlusta á hinn aðilann.

sýna meira

Heilbrigt samband einkennist af því að hægt er að tala opinskátt um hlutina og finna í sameiningu út úr því hvernig samskiptum og athöfnum þið maki þinn viljið taka þátt í. Það á við um öll líkamleg samskipti, hvort sem þau eru af kynferðislegu tagi eða ekki; að haldast í hendur, kyssast, snertast, stunda kynlíf og svo mætti lengi telja. Það er mjög mikilvægt að báðir aðilar séu meðvitaðir og líði vel með þau samskipti sem eru í gangi hverju sinni.

Þú gætir hafa heyrt „nei þýðir nei“ – sem er alveg rétt, en gefur ekki heildarmynd af því sem samþykki felur í sér. Sá frasi setur ábyrgðina á því að neita tiltekinni athöfn á aðra manneskjuna og beinir sjónum að því sem manneskjan vill ekki. Samþykki gengur út á að tala saman um það sem við viljum og tjá okkur um það sem okkur langar til að gera – fyrir, á meðan og eftir á – og hlusta á hinn aðilann.

Hvernig virkar þetta samþykki? 

Sumir hafa áhyggjur af því að það verði vandræðalegt að tala um samþykki eða að það muni eyðileggja stemmninguna. Það er fjarri raunveruleikanum! Stemningin verður bara betri ef við erum meðvituð um það sem bólfélaginn okkar vill og langar til að gera. Samskipti stuðla að því að ykkur báðum líði vel og ykkur finnist þið örugg með að tjá væntingar ykkar.

Hér eru nokkrar spurningar sem gott er að hafa í huga í miðjum klíðum til að vera viss um að bólfélaginn upplifi öryggi og líði þægilega.

Hvernig líður þér? 

Er þetta í lagi? 

Hvað viltu að ég geri? 

Viltu að við förum hægar? 

Viltu að við höldum áfram? 

Hvernig finnst þér gott að láta snerta þig?

Samþykki er:

 • ‍Að eiga í samskiptum við hinn aðilann og virða mörk hans.
 • Að tala saman á öllum stigum kynlífs – fyrir, eftir á og á meðan á því stendur
 • Að spyrja leyfis í staðinn fyrir að gera ráð fyrir að mega gera eitthvað. Til dæmis gætirðu spurt hvort þú megir klæða hina manneskjuna úr bolnum.
 • Að halda áfram að spyrja manneskjuna hvað henni finnist gott og hvað hún vilji gera, þrátt fyrir að þið hafið sofið saman áður. Hafðu í huga að kynlíf er einstakt hverju sinni og fólk langar ekki alltaf að gera það sama. Þess vegna er mikilvægt að halda áfram að tala saman og vera viss um að samþykki sé fyrir hendi.
 • Að virða mörk annarra. Þó að hin manneskjan hafi ekki sagt nei beinum orðum þá þýðir það ekki að samþykki sé fyrir hendi. Samþykki felur í sér að hinn aðilinn sé meðvitaður, taki þátt og vilji láta snerta sig og tala við sig á ákveðinn hátt, hvort sem það er gefið í skyn með orðum eða líkamstjáningu. Þegar einhver vill ekki láta snerta sig eða tala við sig á vissan hátt, er óviss, hljóður, daufur í dálkinn eða segir kannski, þá er ekki um samþykki að ræða og þér ber að virða það.

Samþykki er EKKI:

 • ‍Að gera ráð fyrir því að einhver hafi gefið þér samþykki fyrir snertingu og kynferðislegu tali út frá klæðaburði, flörti, með því að þiggja far eða drykk og þar fram eftir götunum.
 • Að gera ráð fyrir því að manneskja sem er drukkin geti gefið upplýst og meðvitað samþykki fyrir kynlífi, snertingu eða kynferðislegu tali.
 • Að segja já vegna þrýstings eða af ótta við að segja nei.

Merki sem gefa til kynna að mörkin séu ekki virt

Hér eru nokkur merki þess að þú sért ekki að virða mörk maka þíns. Kíktu á þetta og hugleiddu hvort eitthvað af þessu passar við þig.

Þú ert ekki að virða mörk ef þú:

 • Setur pressu á makann um að gera hluti sem hann langar ekki til eða kemur inn samviskubiti hjá honum.
 • Lætur makanum líða eins og hann skuldi þér kynlíf, t.d. af því þú gafst honum gjöf, bauðst á deit eða gerðir honum greiða.
 • Bregst illa við (reiði, leiði eða gremja) þegar makinn segir nei við einhverju eða veitir ekki samþykki sitt samstundis.
 • Hunsar tjáð mörk eða önnur líkamleg merki þess að samþykki sé ekki til staðar (t.d. ef hinn aðilinn færir sig undan eða ýtir þér frá sér). Athugaðu að hægt er að draga samþykki fyrir kynlífi til baka á hvaða tímapunkti sem er, þótt viðkomandi hafi gefið leyfi fyrir því áður.

FÁÐU ALLTAF SAMÞYKKI

Í heilbrigðum samböndum og samskiptum, hvort sem þið eruð makar, bólfélagar, fuck buddies, one night stand, vinir, djammfélagar, netvinir eða eitthvað annað, er mikilvægt að ræða saman og bera virðingu fyrir hinum aðilanum og sjálfum sér. Þótt einhver gefi samþykki á tilteknum tímapunkti þýðir það ekki að manneskjan sé sjálfkrafa búin að samþykkja athöfnina til framtíðar. Athugaðu alltaf að hinni manneskjunni líði vel með það sem þið eruð að gera og spurðu hvernig hún vill láta snerta sig og tala við sig. Allir ráða yfir sínum eigin líkama og því hver fær að snerta hann, á hvaða hátt og undir hvaða kringumstæðum.

Samþykki er fljótandi og hægt er að afturkalla það á hvaða tímapunkti sem er, hvort sem það er tjáð með orðum eða líkamstjáningu. Mikilvægt er að lesa í líkamstjáningu, hlusta og spyrja reglulega til að vera viss um að meðvitað og upplýst samþykki sé til staðar.

sýna minna

Klám

Er í lagi að horfa á klám?  Er í lagi að horfa á klám og stunda sjálfsfróun? Er í lagi að makinn horfi á klám? Hvað ef það truflar mig?  Þarf ég að passa mig á klámi? Er klám ávanabindandi? Hvernig er æskilegt að örva sig, með öðru en klámi? Hvað fær fólk út úr því að horfa á klám? Má taka afstöðu gegn klámi?

sýna meira

Eins og þú hefur væntanlega tekið eftir er klám og kynferðislegt efni út um allt – á netinu, í auglýsingum, sjónvarpsefni og tónlistarmyndböndum og poppar jafnvel óvænt upp á samfélagsmiðlum. Nú til dags er klám bókstaflega einu klikki í burtu. Sumir nýta sér klám til að fá betri mynd af því hvernig kynlíf virkar og hvernig fólk hagar sér í rúminu. Aðrir nota það í kynörvandi tilgangi. Lestu lengra til að komast að því!

Áhrif kláms

Hvað ef ég horfi á klám og finnst það fínt til að fróa mér yfir? Það er allt í lagi og margir sem gera það. Það er hins vegar gott að hafa nokkra hluti í huga.

Klám getur haft mikil áhrif á fólk, sérstaklega ef mikið er horft á það eða ekki gerður skýr greinarmunur á kynlífi og klámi. Þá getur klám haft neikvæð áhrif á þig og sambönd þín við annað fólk. Klám getur til að mynda:

 • Ýtt undir áhyggjur varðandi útlit; að maður sé of grannur eða of feitur, með of stór eða of lítil brjóst, hvort typpið sé nógu stórt og haldi reisn nógu lengi, hvort það eigi að hafa hár eða ekki á ákveðnum líkamspörtum o.s.frv. – sumsé að þú sért ekki í lagi bara eins og þú ert.

 • Ýtt undir áhyggjur varðandi frammistöðu; að þurfa að vera í x mörgum stellingum til að kynlífið sé heitt og „spennandi”, að þurfa að vera með bóner í lengri tíma og fá það ekki of fljótt, að þurfa stöðugt að toppa aðra í kringum sig með krassandi kynlífssögum, að stynja sjúklega hátt til að gefa til kynna að þú sért að fíla kynlífið, að fá það í hvert skipti sem þú stundar kynlíf og það með látum.

 • Haft áhrif á framtíðar-/núverandi samband; með því að taka hugmyndir úr klámi og yfirfæra þær á eigið kynlíf án þess að gera sér grein fyrir því að virða verður mörk og samþykki (sem er aldrei rætt í klámi), með því að blörra línuna á milli kynlífs og ofbeldis, með því að ýta undir hugmyndir um að kynferðisleg niðurlæging fólks, og þá sérstaklega kvenna, sé ásættanleg.

 • Ýtt undir óheilbrigða klámnotkun; með því að sækjast sífellt í mikið og gróft klám getur fólk farið að upplifa að klám sé því nauðsynlegt til að örva sig kynferðislega, upp að því marki að verða háð klámi til að ná kynferðislegri örvun í sjálfsfróun sem og kynlífi. Þá er gott að taka hlé eða hætta alveg að horfa á klám og þjálfa betur upp ímyndunaraflið. 

Hver er munurinn á klámi og kynlífi?

Ef klám gefur ekki skýra mynd af því hvernig fólk stundar kynlíf og sýnir jafnvel frekar hvernig brotið er kynferðislega á manneskju, hver eru þá raunverulegu mörkin á milli kláms og kynlífs?

Hefur þú einhvern tíma sest niður, farið inn á klámsíðu og fengið upp myndband af fólki sem kynnist í gegnum sameiginlega vini, líkar vel við hvort annað, reynir kannski pínu við hvort annað í partýi og endar í rúminu, þar sem þau spyrja hvort annað hvernig þeim finnist gott að láta snerta sig, hversu langt þau langi að ganga og enda jafnvel einungis á því að fara í sleik? Hefurðu mögulega oftar séð myndbönd af fólki sem hefur varla skipst á tveimur orðum en rífur fötin utan af hvort öðru, gellan fer beint í að totta gæjann og þau enda í doggy í klukkustund þar sem gellan orgar eins og í stöðugri fullnægingu, en þau tala lítið sem ekkert saman og horfa jafnvel varla hvort á annað allan tímann en enda samt bæði í brjálaðri fullnægingu?

Í þessu felst munurinn á klámi og kynlífi – klám er leikið og fer oftar en ekki fram í aðstæðum þar sem einstaklingarnir þekkjast lítið og sjaldan er spurt hvað þeim líður vel með að gera og hvað þeir vilja ekki gera, á meðan raunverulegt og gott kynlíf byggist á heilbrigðum samskiptum, trausti, virðingu, dassi af ennþá meiri samskiptum og að lokum einlægu samþykki. Það að vera góð, góður eða gott í rúminu felur einfaldlega í sér að vera fær í samskiptum, að bera virðingu fyrir hinni manneskjunni og að kynnast líkama hvort annars í sameiningu. Það er ekki til einhver töfraformúla sem samanstendur af ákveðnum stellinum, hversu lengi þú getur haldið bóner eða hvort þú skvörtar yfir allt herbergið. Gott kynlíf byggist á góðum samskiptum og kynferðislegu jafnræði þar sem þarfir beggja (eða allra) aðila eru virtar.

Ef þú sérð eitthvað í klámi sem þig langar til að prófa þarftu að vera fullviss um að hinn aðilann langi líka til að prófa, en finni ekki fyrir pressu. Ef einhver sem tekur þátt í kynlífi er óviss um hvort hann vilji prófa eitthvað eða upplifir pressu til að gera það er betra að sleppa því. Ef ekki er um að ræða einlægt samþykki er auðvelt að fara yfir mörk annarra og beita kynferðislegu ofbeldi. Til að fræðast betur um kynlíf, samþykki, mörk, virðingu og traust skaltu kíkja á kaflann okkar um heilbrigð sambönd.

Kynheilbrigði

Staðreyndin í dag er sú að mörg ungmenni sækja í klám til að fræðast um kynlíf, þar sem þau fá ekki kynfræðslu sem höfðar til þeirra eða fá of lítið af henni. Það er skiljanlegt að leitað sé í klám ef upplýsingar er ekki að fá annars staðar. Eins og við höfum tekið fram hér að ofan er klám hins vegar ekki það sama og kynlífsfræðsla. Í klámi er aldrei minnst á kynheilbrigði og kynheilbrigði fólks sjaldnast sett í forgang. Hér eru hins vegar nokkrir hlutir sem mikilvægt er að vita um kynheilbrigði.

Kynheilbrigði þitt er númer eitt, tvö og þrjú. Til að stuðla að eigin kynheilbrigði þarftu að huga að því að þér líði vel í eigin skinni og að líkami þinn sé heilbrigður, en einnig að þú þekkir þinn eigin líkama og hafir einhverja hugmynd um hvað þér finnst gott, hvað þú ert til í að gera og hvað ekki. Kynheilbrigði gengur líka út á að hugmyndir þínar um kynlíf séu veruleikatengdar, en klám gengur sjaldan út á að veita heilbrigða ímynd af kynlífi.

Þegar þú ert fyrst að þreifa þig áfram í kynlífi er mikilvægt að gefa sér rými til að læra, hlusta og tala saman. Enginn fæðist með stórkostlega hæfileika í rúminu, heldur þurfa allir æfingu í að hlusta, tala saman og læra á eigin líkama sem og manneskjunnar sem maður er með. Leyfðu þér að læra og taktu mark á eigin tilfinningu ef þú hefur ekki áhuga á að prófa eitthvað. Þú átt rétt á að þér líði vel kynferðislega, bæði á eigin spýtur og með öðrum.

Klámvæðing

Hvað er klámvæðing? Þegar talað er um klámvæðingu er verið að vísa til þess hversu útbreitt og aðgengilegt klám er orðið, hversu erfitt er að stjórna eða takmarka dreifingu þess og hvaða áhrif það hefur á okkur í daglegu lífi.

Við getum séð merki klámvæðingar allt í kringum okkur; ilmvatnsauglýsingar þar sem ilmvötnin hvíla á nöktum líkama konu löðrandi í olíu, fataauglýsingar þar sem fyrirsæturnar eru í pósum sem engin manneskja myndi ósjálfrátt detta í heldur vísa í mjög kynferðislegar aðstæður og í textum tónlistarmyndbanda þar sem talað er um konur sem hórur og tíkur. Þetta eru allt dæmi um það hvernig klámvæðingin birtist okkur í hversdeginum. Orðið klámvæðing vísar til þess að áhrif kláms einskorðast ekki við klámið eitt og sér, heldur dreifast út í samfélagið og hafa áhrif á markaðssetningu, það sem við álítum eftirsóknarvert út frá auglýsingum og tísku og síðast en ekki síst hvernig við upplifum okkur sem kynverur.

Þessi klámvæðing sem er að finna allt í kringum okkur hefur líka áhrif á það hvernig við hugsum um okkur sjálf og viðhorf okkar til kynlífs. Rannsóknir á Íslandi hafa sýnt fram á að klámvæðingin hefur alvarlegar afleiðingar fyrir ungmenni og að þau upplifi mikla pressu til að stunda kynlíf og þá í grófari myndum, auk þess sem þau upplifa pressu varðandi útlit og frammistöðu í kynlífi.

Áhrif á Stígamótum

Hér á Stígamótum, sem er ráðgjafarþjónusta fyrir fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi, verðum við vör við að kynferðisofbeldi verður sífellt grófara og það rekjum við ekki síst til áhrifa klámvæðingarinnar. Þar má meðal annars nefna að við sjáum fleiri mál sem tengjast hópnauðgunum og nauðgunum í endaþarm. Við viljum brýna fyrir ungmennum að fræðast um mörk, samþykki, samskipti í rúminu, virðingu og traust og hafa þau ávallt í huga þegar kynlíf er stundað, til að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi. Hægt er að lesa sér frekar til hér á þessari síðu.

 

sýna minna

Mýtur og staðreyndir um kynlíf

Kynlíf er spennandi fyrirbæri og vekur eðlilega upp margar spurningar. Það getur verið mjög skemmtilegt að ræða saman um kynlíf og velta hlutunum fyrir sér, en sömuleiðis er mikilvægt að muna að margt af því sem þú heyrir er einfaldlega ekki satt.

Sýna meira

Hér að neðan eru nokkrar algengar mýtur og staðreyndir um kynlíf sem gott er að vita af:

 

 1. Stelpur vilja ekki stunda kynlíf og eiga ekki frumkvæði að kynlífi. 
  Stelpur hafa ekki í eðli sínu minni kynhvöt en aðrir og þær eiga jafnmikið frumkvæði að kynlífi og hver annar. Fólk hefur mismikla kynhvöt, óháð kyni. Í samfélaginu leynast hins vegar ýmis skilaboð sem hvetja stráka til að vera virkir kynferðislega og gera ráð fyrir að stelpur séu það ekki. Þessi skilaboð setja pressu á fólk um að haga sér samkvæmt fyrirfram gefnum hugmyndum samfélagsins. Það er mikilvægt að líta gagnrýnum augum á þessi skilaboð og hlusta á eigin langanir.

 2. Strákar eru alltaf til í tuskið, annars er eitthvað að. 
  Sú ranghugmynd er algeng að strákar séu tilbúnir í kynlíf hvar og hvenær sem er og séu stöðugt að hugsa um kynlíf. Kynhvöt stráka er mismunandi eftir hverjum og einum – einn er með mikla kynhvöt á meðan annar hefur litla og allt þar á milli. Þessi mýta ýtir líka undir þá ranghugmynd að strákar geti ekki orðið fyrir kynferðisofbeldi því þeir séu alltaf til í tuskið. Líkt og allir aðrir hafa strákar mörk í kynlífi og er mikilvægt að gera sér grein fyrir sínum mörkum og tjá þau í rúminu.

 3. Allar stelpur eru með píkur, allir strákar með typpi og það eru bara til þessir tveir hópar fólks.
  Þessi mýta er mjög þrautseig en gerir ekki ráð fyrir fjölbreytileika mannkynsins. Margar stelpur eru með typpi, margir strákar með píku og svo er fólk sem hvorki skilgreinir sig sem karl eða konu, óháð kynfærunum sínum. Annað fólk fæðist með ódæmigerð kyneinkenni, sem þýðir að líffræðileg uppbygging þeirra er frábrugðin því sem við eigum að venjast. Það getur hvort sem er sést utan á viðkomandi, komið í ljós við kynþroska eða aldrei uppgötvast. Við erum eins fjölbreytt og við erum mörg, upplifum okkur mismunandi og höfum ólíka líkama. Það er mikilvægt að bera virðingu fyrir líkama, skilgreiningum hvers og eins og hvernig hvert og eitt vill láta koma fram við sig í rúminu.

 4. Þú þarft að stunda typpi-í-píku-kynlíf til að missa meydóminn/sveindóminn. Það er algengur misskilningur að fyrsta skiptið sé þegar þú stundar typpi-í-píku-kynlíf í fyrsta sinn. Í fyrsta lagi er kynlíf mun fjölbreyttara en einungis að setja typpi í píku. Þar má nefna munnmök, fróun, örvun á kynfærum með fingrum eða kynlífsdóti, endaþarmsmök og aðra innilega snertingu. Í öðru lagi gerir þessi mýta oftast einungis ráð fyrir gagnkynhneigðum pörum, en hinsegin pör stunda oft kynlíf sem hefur ekkert með typpi-í-píku að gera. Það er þitt að skilgreina hvað þú upplifir sem kynferðislega athöfn með annarri manneskju og því þitt að segja til um hvenær þú hefur stundað kynlíf.

 5. Fyrsta skiptið mun verða vont – og jafnvel í nokkur skipti eftir á. Kynlíf á aldrei að vera vont, hvort sem um er að ræða fyrsta skiptið eða það tugþúsundasta. Þessi mýta er því kjaftæði frá upphafi til enda. Kynlíf snýst um að eiga í innilegum, skemmtilegum og nánum samskiptum við aðra manneskju, að njóta þess að snerta og vera snert. Þá skiptir engu hvort um er að ræða ókunnuga manneskju eða einstakling sem þú hefur verið að deita í langan tíma. Ef eitthvað í kynlífi veldur þér sársauka er mikilvægt að hætta strax. Þú átt skilið að upplifa öryggi, væntumþykju, spennu og gleði við að stunda kynlíf. 

 6. Kynlíf er eins og klám. Þú verður að stynja hátt, fara í ýktar stellingar, raka kynfærin og líta út eins og klámstjarna til að vera aðlaðandi. Mörg ungmenni horfa reglulega á klám og fá hugmyndir sínar um kynlíf oft þaðan. Í klámi er mikið af steiktum skilaboðum um kynhegðun og æskilegt útlit. Þar eru flestar konurnar grannar og rakaðar að neðan, á meðan karlarnir eru með risastórt typpi og dúndrandi standpínu í marga klukkutíma. Samskiptin milli þeirra eru oft af skornum skammti og lítið um innilegheit og væntumþykju. Varla er hægt að líkja þessu við kynlíf þar sem grunnurinn að góðu kynlífi eru heiðarleg og opin samskipti sem byggjast á virðingu og trausti. Þá skiptir engu máli hvernig manneskjan lítur út. Lestu þér meira til um heilbrigt kynlíf og muninn á klámi og kynlífi á sjúkást.is.

 7. Fatlað fólk hefur ekki kynhvöt. Margir halda að fatlað fólk hafi ekki kynhvöt og efast jafnvel um að það stundi kynlíf. Fatlað fólk eru kynverur líkt og aðrir og hafa mismunandi kynhvatir, mismunandi kynhneigðir og mismunandi langanir hvað varðar kynlíf, óháð fötluninni. Ímyndir af fötluðu fólk í sjónvarpsþáttum og á öðrum miðlum sýna oft fatlað fólk í einsleitu ljósi og gerir ráð fyrir að líf þeirra markist einungis af fötluninni. Þetta er fjarri veruleikanum, því fatlað fólk stofnar til rómantískra og kynferðislegra sambanda líkt og hvert annað fólk. Sambönd fatlað fólks eru eins fjölbreytt og þau eru mörg.

 8. Ef þú ert í sambandi áttu alltaf að vera til í kynlíf, annars elskarðu ekki hina manneskjuna. Þú ákveður hvort þú vilt stunda kynlíf eða ekki og maki þinn á að virða ákvörðun þína jafnvel þótt hann sé ekki á sama máli.  Þú átt ekki að þurfa að stunda kynlíf til þess að viðhalda sambandi þínu og sanna ást þína til makans. Fólk í kringum þig gæti verið á öðru máli og haft aðrar skoðanir á kynlífi í sambandi en það breytir því ekki að ákvörðun þín er ofar öllu. Þú átt alltaf rétt á því að segja nei.

 9. Fólk í sambandi stundar ekki sjálfsfróun. Að stunda sjálfsfróun á meðan þú ert í sambandi er ekki svik við maka þinn. Það er heilbrigt að stunda sjálfsfróun. Við kynnumst líkama okkar betur og það getur reynst vel í kynlífi og hjálpað ykkur að fullnægja hvort öðru. Sjálfsfróun losar einnig um spennu, hvort sem hún er kynferðisleg eða ekki.

 10. Þegar þú byrjar að stunda kynlíf máttu ekki segja stopp. Þú átt alltaf rétt á því að segja nei og stopp, jafnvel þótt þú hafir samþykkt að stunda kynlíf til að byrja með – það er engin skömm að því. Það má alltaf segja nei, sama á hvaða stigi þið eruð í keleríi eða kynlífi.  Þú skuldar engum kynlíf og það er mikilvægt að virða mörkin þín og bólfélagans. Mundu að þú átt þinn eigin líkama og ræður hver má snerta hann, hvernig og hvenær. Þetta á líka við í parasamböndum, sama hversu lengi þið hafið verið saman.

 11. Allir eru að gera það – og eiga að vilja gera það. Samfélagið okkar er gríðarlega upptekið af kynlífi. Kynlíf er sett á háan stall en engu að síður er lítil fræðsla um það. Við þurfum ekki öll að hafa áhuga á kynlífi – annað gerir okkur ekki að verri manneskjum eða minna spennandi. Klámvæðing samfélagsins hefur talið okkur trú um að við eigum alltaf að vilja kynlíf og sýna kynferðislega hegðun. Áhugi á kynlífi skilgreinir okkur ekki sem einstaklinga. Þinn líkami er þín eign og þú ræður yfir honum, bæði þegar kemur að löngunum og ánægju. Svo eru bara ekkert allir sem langar að stunda kynlíf yfirhöfuð!
Sýna minna