HEILBRIGÐ
SAMBÖND

Á þetta við mig?

Þegar við tölum um sambönd hér á þessari síðu eigum við fyrst og fremst við rómantísk og/eða kynferðisleg sambönd, til dæmis parasambönd en líka óformlegri sambönd, bólfélaga, one night stands, langtímasambönd, lokuð sambönd, opin sambönd, fjölkær sambönd, hinsegin sambönd og öll önnur sambandsmynstur sem til eru! Þótt áherslan sé á parasambönd þá á næstum allt sem þið lesið hér líka almennt við um samskipti okkar við aðra, t.d. vináttu og fjölskyldutengsl. Því má yfirfæra textann á nánast hvaða samband sem er.

sýna meira

Á íslensku er stundum erfitt að finna orð sem lýsa fólki sem á í nánu sambandi og sem geta átt við um alla – fólk af öllum kynjum og á öllum aldri. Oft völdum við að nota orðið maki því það getur vísað til fólks af hvaða kyni sem er. Orðið er samt frekar fullorðinslegt og sumir sjá fyrir sér hjón. Hér eigum við samt við að maki geti verið kærasti, kærasta, elskhugi, bólfélagi, einhver sem maður er að hitta, eða jafnvel einhvern sem þú svafst hjá einu sinni.

Það skiptir ekki máli í hvernig sambandi þú ert eða hvernig manneskja þú ert – við megum öll við því að endurskoða sambandið sem við erum í og átta okkur á því hvernig við stuðlum að heilbrigðari samskiptum í kringum okkur. Óheilbrigð samskipti geta komið upp í hvaða sambandi sem er.

Erum við að deita?

Hvort sem þú kallar það að deita eða eitthvað annað skiptir máli að báðar (eða allar) manneskjurnar séu meðvitaðar um hvað sambandið felur í sér. Hvernig sem þú sérð sambandið eða hvað svo sem þú kýst að kalla það er mikilvægt að þið séuð sammála um það sem er í gangi ykkar á milli. Hafðu þessi atriði í huga:

 • Hefurðu rómantískan áhuga á manneskjunni? 
 • Er gagnkvæmur áhugi á að fara í samband?
 • Eyðið þið tíma saman eða farið á deit án vina ykkar?
 • Hefurðu sagt einhverjum frá sambandinu eða deilt á netinu?
 • Eru þið sammála um hvernig sambandið stendur? 

Telst það með ef við erum bara að sofa saman?

Að sofa saman þýðir ekki endilega það sama í huga allra, en venjulega er átt við einstaklinga sem þekkjast (náið eða ekki) og stunda kynlíf. Hér gæti verið um par að ræða en svo þarf alls ekki að vera.

Jafnvel þótt þið séuð „bara“ að sofa saman er mikilvægt að sýna virðingu og bera traust til hvors annars. Þér á alltaf að finnast þú geta tjáð vilja þinn og væntingar án þess að eiga á hættu að fá neikvæð viðbrögð. Heilbrigð samskipti eru líka mikilvæg á milli fólks sem sefur saman en lítur ekki á sig sem par og þess vegna gæti efni þessarar síðu nýst þér í þannig aðstæðum. 

En ef ég er ekki að deita?

Þótt þú sért ekki að deita er mikilvægt að rækta heilbrigð sambönd í kringum sig og við sjálfan sig. Upplýsingarnar á þessari síðu geta átt við um hvaða samband sem er, hvort sem það ert sambandið við þig, vinina, vinnufélaga, fyrrverandi maka eða fjölskyldumeðlimi.

Við erum ekki einu sinni saman, hvernig getur þetta kallast ofbeldi?

Ofbeldi getur komið fram í hvaða sambandi sem er, hvort sem er um maka, bólfélaga, vini, vinnufélaga eða fjölskyldumeðlimi að ræða. Þú getur upplifað óheilbrigt eða ofbeldisfullt samband hvort sem hin manneskjan er náin þér, lítið tengd þér eða bara einhver sem þú hefur sofið hjá einu sinni. Ef eitthvað í ykkar sambandi veldur þér óþægindum eða vekur upp hræðslu gæti það verið merki um óheilbrigð samskipti eða ofbeldi.

sýna minna

Heilbrigð sambönd

Fólk skilgreinir sambönd á mismunandi hátt. Hvert og eitt samband er einstakt, hvort sem um er að ræða parasamband, vinasamband eða samband við fjölskyldumeðlimi. En til að samband geti talist heilbrigt þarf nokkur nauðsynleg hráefni!

sýna meira

Heilbrigð samskipti

Opinská, hreinskilin og traust samskipti eru undirstöðuatriði í heilbrigðu sambandi. Fyrsta skrefið í því að byggja upp gott samband er að skilja þarfir og væntingar hvors annars – að vera á sömu blaðsíðunni. Það þýðir að þið verðið að tala saman!

Hér eru nokkur ráð sem geta hjálpað til við að byggja upp heilbrigt samband og viðhalda því:

 • Segðu frá. 
  Þegar eitthvað er að angra þig skaltu segja frá því í staðinn fyrir að halda því út af fyrir þig.

 • Sýndu virðingu. 
  Væntingar og tilfinningar ykkar beggja skipta máli. Sýndu manneskjunni sem þú ert með að þú leggir þig fram við að taka tillit til ykkar beggja. Í heilbrigðu sambandi er gagnkvæm virðing algjört grundvallaratriði.

 • Settu mörk. 
  Veltu því fyrir þér hvernig þú vilt að komið sé fram við þig og hvað þér þykir þægilegt og óþægilegt. Þú setur mörk til að aðskilja og gera þér grein fyrir hvar þú endar og hinn einstaklingurinn byrjar.

 • Komist að samkomulagi. 
  Það er eðlilegt að vera ekki alltaf sammála en þá er mikilvægt að finna leið til að komast að samkomulagi. Reynið að leysa úr ágreiningi á sanngjarnan og uppbyggilegan hátt.

 • Sýndu stuðning. 
  Vertu hughreystandi og uppörvandi þegar þess þarf. Láttu líka vita þegar þú þarft á stuðningi að halda. Heilbrigð sambönd ganga út á að byggja hvort annað upp, ekki að rífa hvort annað niður.

 • Berðu virðingu fyrir einkalífinu. 
  Þótt þið séuð saman þýðir það ekki að þið þurfið að vera saman öllum stundum. Það er hollt fyrir ykkur að fá næði til að hitta vini og fjölskyldu og rækta áhugamálin ykkar í einrúmi.

Heilbrigð mörk

Að setja mörk er góð leið til að skapa heilbrigt og öruggt samband. Gott er að velta því fyrir sér hvernig þú vilt að sé komið fram við þig og hlusta síðan á það hvernig makinn vill láta koma fram við sig. Ef þið ræðið mörkin ykkar áttið þið ykkur betur á því hvernig sambandi þið sækist eftir. Mörk eru ekki til þess gerð að hefta þig eða láta þér líða eins og þú þurfir að tipla á tánum í kringum hina manneskjuna. Að setja mörk þýðir ekki að maður vantreysti hinum – heldur þveröfugt. Mörk segja til um það sem þér líður vel með og hvernig þú vilt að komið sé fram við þig. Mundu að það að setja heilbrigð mörk á ekki að koma í veg fyrir neitt af eftirtöldu:

 • Að þú skemmtir þér og verjir tíma með fjölskyldu og vinum
 • Að þú ræktir áhugamálin þín
 • Að þú eigir þín lykilorð út af fyrir þig, t.d. að Facebook, Twitter, Instagram og Snapchat
 • Að komið sé fram við þig af virðingu og tillit tekið til þinna áhugamála og skoðana
sýna minna

Hinsegin sambönd

Heilbrigð samskipti eru líka mikilvæg í hinsegin samböndum, burtséð frá kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu einstaklinga.

Hvort sem einstaklingarnir í sambandinu skilgreina sig sem homma, lesbíur, eikynhneigða, pankynhneigða, kynsegin, intersex, trans, eru ekki alveg viss með skilgreiningu eða skilgreina sig sem hinsegin á einhvern annan hátt er alveg jafn mikilvægt að leggja áherslu á heilbrigð samskipti, samþykki, mörk, traust og alla aðra þætti sem heilbrigð sambönd samanstanda af.

sýna meira

Ég er hinsegin. Er ég í heilbrigðu sambandi? 
Heilbrigð sambönd geta verið alls konar en það sem þau eiga sameiginlegt er að virðing, jafnrétti og traust ríkir hjá báðum (eða öllum) aðilum. Hér eru nokkur merki þess að þú sért í heilbrigðu hinsegin sambandi:

 • Þið virðið persónufornafn og nafn hvort annars
 • Þið eruð meðvituð um og virðið mörkin ykkar
 • Þið gefið hvort öðru rými til að hanga með vinum og ættingjum, án þess að upp komi ásakanir um framhjáhald
 • Makinn reynir ekki að stjórna því í hvað þú eyðir peningunum þínum, hverja þú hittir/talar við eða hvernig þú berð þig eða klæðir
 • Makinn virðir hvernig og hvenær þú vilt koma út gagnvart öðrum, og hótar ekki að outa þig við fólk
 • Makinn virðir hvernig þú skilgreinir þig og segir þér aldrei að þú sért ekki alvöru lesbía, hommi, transmanneskja eða hvaðeina sem þú skilgreinir þig sem
 • Makinn virðir mörk þín og byggir upp traust á öllum sviðum sambandsins, líka þegar kemur að kynlífi

Ég er í óheilbrigðu eða ofbeldisfullu hinsegin sambandi.

Ef þú ert hinsegin og finnst þú vera í óheilbrigðu eða ofbeldisfullu sambandi er mikilvægt að þú leitir þér hjálpar. Stundum gagnast að ræða við náinn vin eða fjölskyldumeðlim en í sumum tilfellum er gott að tala við óháðan aðila. Þú getur rætt við fagaðila sem vinna með þolendum ofbeldis, en Samtökin '78 bjóða líka upp á ókeypis ráðgjöf hjá fólki sem er vel að sér í hinsegin málefnum og hefur mikla reynslu af vinnu með hinsegin fólki. Einnig er hægt að fá aðstoð á Stígamótum.

sýna minna

Mörk

Að kunna að setja mörk er mikilvægt í öllum samböndum, hvort sem um er að ræða langtímasamband, bólfélaga eða eitthvað annað. Í heilbrigðu sambandi er mikilvægt að þið þekki mörk hvors annars. Þess vegna verðið þið að geta talað opinskátt saman án þess að óttast viðbrögðin. Ef bólfélagi eða maki gerir lítið úr þörfum þínum, segir þær kjánalegar eða bregst á annan hátt illa við þeim mörkum sem þú setur, sýnir viðkomandi þér ekki tilhlýðilega virðingu. Mörk eru grundvallaratriði til að geta átt í ánægjulegum og heilbrigðum samskiptum.

sýna meira

Að tala saman um mörk hjálpar ykkur að passa upp á að þörfum og löngunum ykkar sé sinnt og að ykkur líði vel saman. Þegar sett eru mörk í sambandi er gott að hafa eftirfarandi í huga:

Tilfinningaleg mörk

Mörk eru eiga ekki einungis við í kynlífi, heldur skiptir líka máli að setja tilfinningaleg mörk. Hér eru nokkur mörk:

 • Ég elska þig. Að viðurkenna ást á annarri manneskju er oft álitið stórt skref í sambandi. Hins vegar kemur rétti tíminn til að segja: „Ég elska þig,“ ekki endilega samtímis fyrir báða aðila. Ef manneskjan sem þú ert að hitta segist elska þig er allt í lagi að þú treystir þér ekki til að segja það sama á einmitt þeim tímapunkti. Hins vegar er gott að láta viðkomandi vita hvernig þér leið við þessa játningu og hvernig þú sérð fyrir þér framtíð ykkar.

 • Að hafa tíma út af fyrir sig. 
  Eins frábært og það er að eyða tíma með manneskju sem manni þykir vænt um er mikilvægt að eiga líka tíma út af fyrir sig. Báðir aðilar hafa gott af því að vera með vinum og fjölskyldu og það á ekki að þurfa leyfi hins til þess. Svo er líka gott að vera einn með sjálfum sér og rækta áhugamálin sín. Það er mikilvægt að geta sagt hinum aðilanum að við þurfum tíma út af fyrir okkur án þess að finna fyrir pressu um að verja meiri tíma með viðkomandi.

Líkamleg mörk.

Þú átt rétt á að setja mörk um líkamlega snertingu og hvernig talað er við þig, hvort sem er af kynferðislegu tagi eða ekki. Hér eru nokkrir hlutir sem gott er að hafa í huga í sambandi við líkamleg mörk:

 • Á þínum hraða. 
  Ekki flýta þér. Það að verða líkamlega og kynferðislega náinn einhverjum þarf ekki að gerast í einum rykk. Í heilbrigðu sambandi eru báðir aðilar meðvitaðir um það hversu langt þeir vilja ganga, því þeir tala saman og láta hinn vita ef eitthvað breytist. Það eru engar reglur um hversu langt á að ganga á hverjum tímapunkti í sambandinu. Þú finnur hvað þér líður vel með hverju sinni.

 • Kynlíf er ekki gjaldmiðill. 
  Þú skuldar ekki neinum neitt kynferðislega, ekki heldur þótt einhver bjóði þér út að borða, gefi þér gjöf eða segist elska þig. Það er ekki sanngjarnt að pressa þig að gera eitthvað sem þig langar ekki, sama hvað manneskjan hefur gert fyrir þig. Mundu að þú átt þinn líkama og það er þitt að leyfa öðrum að snerta hann, á þínum eigin forsendum. Það sama gildir auðvitað um þig, þú getur ekki gert ráð fyrir kynlífi út frá einhverju sem þú sagðir við eða gerðir fyrir hina manneskjuna.

Stafræn mörk

Það getur verið erfitt að átta sig hvar mörkin liggja á netinu - en það er jafn mikilvægt að þekkja mörkin sín og virða mörk annarra þótt samskiptin fari ekki fram augliti til auglitis.

Hér eru nokkrar spurningar sem geta hjálpað þér að átta þig á því hvar mörkin ykkar liggja:

 • Finnst mér í lagi að þið taggið mig á myndum og í póstum?
 • Vil ég að sambandið mitt komi fram á Facebook?
 • Finnst mér í lagi að við öddum vinum hvors annars?
 • Hvenær er í lagi að senda mér skilaboð og hversu fljótt má búast við svari?
 • Er í lagi að ég noti síma hinnar manneskjunnar?
 • Er í lagi að pósta, tvíta eða kommenta um sambandið okkar?

Þegar þú hefur velt fyrir þér þínum mörkum getiði rætt málin saman. Þá getið þið fundið út hvað ykkur finnst í lagi og hvað virkar ekki fyrir ykkur. Þið eiga rétt á því að hlustað sé á ykkar mörk og þau virt í öllum stafrænum samskiptum. Ef annar vill stjórna því hvernig samskiptum ykkar er háttað á netinu eða virðir ekki mörk getur það verið merki um að sambandið sé óheilbrigt.

Þegar líður á sambandið geta þessi mörk breyst. Þér gæti farið að þykja eitthvað óþægilegt sem þér fannst í góðu lagi, eða farið að finnast eitthvað í lagi sem þú varst óviss með áður. Því er mikilvægt að halda samtalinu áfram og ræða málið ef þú skiptir um skoðun.

Fleiri atriði sem gott er að hafa í huga varðandi friðhelgi einkalífsins á netinu og í símanum:

 • Lykilorð eru einkamál. 
  Gott er að halda sínum lykilorðum út af fyrir sig, jafnvel þótt maður treysti hinum aðilanum. Þú átt rétt á stafrænni friðhelgi, alveg eins og þú átt rétt á að verja tíma út af fyrir þig. Ýmislegt getur komið upp á ef hinn aðilinn hefur aðgang að samfélagsmiðlunum þínum, spjalli og öðrum reikningum. Til öryggis er best að halda lykilorðunum fyrir sig.

 • Myndir og sexting. 
  Það er eins með sexting og líkamlegu mörkin – mikilvægast er að finna út úr því hvað þér líður vel með og virða mörk annarra. Ef þú treystir einstaklingnum og þig langar til að senda kynferðislegar myndir og skilaboð skaltu fullvissa þig um að einstaklingurinn viti af því og gefi samþykki. Það er aldrei í lagi að þrýsta á neinn eða hóta til að fá slíkt efni sent. Þegar þú færð myndir eða skilaboð með þínu samþykki ber þér að virða það að þetta efni var einungis sent til þín og er ekki ætlað öðrum. Þegar kynferðisleg skilaboð og myndir eru annars vegar eiga allir rétt á því að beðið sé um samþykki og að mörk þeirra sem og friðhelgi einkalífsins séu virt.
Mörk ganga út á traust og virðingu. Mikilvægt er að báðir einstaklingar séu meðvitaðir um og virði mörk sín og hinnar manneskjunnar á öllum sviðum sambandsins. Báðum aðilum á að líða vel með að tjá sín mörk og vita að því verði vel tekið. Heilbrigð mörk eru lykill að heilbrigðu sambandi!
sýna minna

Traust

Traust er nauðsynlegur þáttur í heilbrigðu sambandi – en mörg okkar eiga samt erfitt með að treysta öðrum, af ýmsum ástæðum.

Að treysta einhverjum þýðir að geta reitt sig á manneskjuna, hafa trú á henni og líða vel í kringum hana, bæði líkamlega og andlega. Við byggjum smám saman upp traust á fólki sem við eigum í samskiptum við og þykir vænt um. Traust er áunnið og ekki hægt að krefjast þess að aðrir treysti þér eða að fólk sanni með tilteknum hætti að það sé traustsins virði. Að treysta annarri manneskju er ákvörðun sem hver og einn tekur.

Vert er að taka fram að hér að neðan er gengið út frá því að um par sé að ræða, þó að traust skipti auðvitað máli í samböndum af öllu tagi.

sýna meira

Hvernig byggjum við upp traust í sambandi?

Það tekur tíma að byggja upp traust í heilbrigðu sambandi. Oft er erfitt að átta sig á því hvenær hægt er að treysta hinni manneskjunni, sérstaklega ef um nýlegt samband er að ræða. Gott ráð er að hlusta á það sem innsæið segir þér – hefurðu góða eða slæma tilfinningu fyrir þessari manneskju? Taktu eftir því hvernig hann/hánhún hegðar sér í kringum þig og aðra.

Í heilbrigðu sambandi er mikilvægt að treysta, að vera treyst, geta verið berskjölduð og að þora að tjá tilfinningar sínar, skoðanir og upplifanir. Það er ómögulegt að byggja upp traust ef bara annar aðilinn er til í að leggja sig fram við það. Það þarf tvo (eða fleiri) til. Eftir því sem líður á sambandið er gott að spyrja sig eftirfarandi spurninga:

Að vera til staðar

Er viðkomandi til staðar fyrir mig – og er ég það?
Þegar við tölum um að vera til staðar þýðir það ekki bara að vera bókstaflega á staðnum, heldur líka á tilfinningalegan hátt. Hlustið þið og styðjið hvort annað? Sýnið þið næmni fyrir vandamálum og áhyggjum hvros annars? Sýnið þið samkennd og væntumþykju? Manneskja sem er traustsins verð á að geta tjáð væntumþykju og samkennd í garð annarra. Þetta þýðir líka þér er treyst til að vita hvað er þér fyrir bestu. Það er ekki til marks um traust ef makinn lætur eins og þú vitir ekki hvernig þér líður eða hvað sé þér fyrir bestu.

Í heilbrigðu sambandi áttu að geta treyst því að þú sért ekki í neinni hættu ef eitthvað kemur upp á. Allir eiga skilið að vera í sambandi þar sem hægt er að leysa deilur á heilbrigðan máta og af virðingu.

Erum við samkvæm sjálfum okkur?
Ef þú vilt sýna að hægt sé að stóla á þig, skiptir öllu máli að að sýna samkvæmi í orði og gjörðum. Í upphafi sambands snýst það kannski um smávægilega hluti eins og að mæta á tilsettum tíma þegar þið hafið ákveðið að hittast. Sömuleiðis er mikilvægt að virða alltaf mörk og halda trúnaði. Svonalagað kemur hægt og rólega eftir því sem sambandið þróast en aðalmálið er að báðir aðilar séu samkvæmir sjálfum sér – ekki bara stundum, heldur alltaf.

Segirðu það sem þú meinar og gerirðu það sem þú segist ætla að gera?
Við höfum öll hitt fólk sem segir eitt og gerir annað. Í sambandi gengur svoleiðis hegðun ekki því hún grefur undan traustinu. Þú getur ekki sagst elska aðra manneskju og brotið svo trúnað og mörk eða jafnvel beitt ofbeldi. Ef þú elskar einhvern þá brýturðu ekki á viðkomandi.

Margir sem leita til Stígamóta segja frá því að makinn sé stöðugt að athuga og spyrja með hverjum þau séu, hvað þau séu að gera, og reyni jafnvel að stjórna því hvern þau hitta. Slík hegðun er ekki í lagi og sýnir skort á trausti. Mundu, þú velur að treysta! Að treysta hinum aðilanum er mikilvægur þáttur í sambandinu, hvort sem þið er í sambúð eða fjarbúð þar sem þúsundir kílómetra skilja að. Þegar traust er til staðar er ekki þörf á að fylgjast með eða stjórna makanum. Auk þess þýðir það að makinn þarf ekki að „sanna“ ást sína eða tryggð. Slíkar kröfur koma til vegna þess að það skortir traust. Ef þú treystir einhverjum þá treystirðu viðkomandi, burtséð frá því hvernig hann ver tíma sínum, með hverjum og hvar. Það þýðir líka að þú treystir því að ef einhver utanaðkomandi aðili myndi vilja skaða sambandið þá myndi maki þinn koma í veg fyrir það, upp á eigin spýtur.

Hvernig get ég lært að treysta aftur ef ég hef upplifað svik?
Ef einhver sem þér þótti (og þykir jafnvel ennþá) vænt um braut á þér er skiljanlegt að þú eigir erfitt með að treysta öðrum. Mundu samt að þrátt fyrir að þú vitir hversu sárt það er þegar einhver bregðist trausti þínu þá þýðir það ekki að engum sé treystandi. Það er mikilvægt að líta á annað fólk út frá þess eigin orðum og gjörðum, en ekki orðum og gjörðum einhverra sem brugðust þér. Það er skiljanlegt að þetta hafi áhrif á það hvernig þú nálgast og upplifir aðra, en það afsakar þó ekki óheilbrigt samskiptamynstur af þinni hálfu. Þú átt ekki rétt á að vera stöðugt að tékka á manneskjunni og krefjast þess að hún sanni að hún sé trú þér. Eins og við höfum sagt byggist traust upp með tímanum. Þegar við byrjum í nýju sambandi takið við sameiginlega ákvörðun um að láta á það reyna.

Ef þér líður eins og eldra samband eða samskipti við einstakling sem brást trausti þínu geri þér það erfitt að byggja upp heilbrigt samband gæti verið að rétti tíminn til að fara í samband sé einfaldlega ekki kominn. Að treysta öðrum felur líka í sér að treysta sjálfu sér. Það að einhver bregðist okkur getur leitt til þess að við vantreystum okkur sjálfum og okkar eigin innsæi. Mundu að þótt einhver hafi svikið þig var það  ekki þér að kenna – þú getur ekki tekið ábyrgð á því. Þú getur hins vegar tekið ábyrgð á því að vinna úr þessari upplifun svo þér líði vel og þú getir átt í heilbrigðum samskiptum. Stundum getur verið gott að leita sér hjálpar við að koma á heilbrigðari samskiptum við sjálfan sig og aðra í kringum sig.

sýna minna

Virðing

Fólk hefur ólíkan skilning á hugtakinu virðing. Stundum er það notað til að lýsa aðdáun á einhverjum sem veitir okkur innblástur eða okkur þykir vænt um. Stundum er það notað til að lýsa sambandi okkar við einhvers konar yfirvald, til dæmis foreldri, fjölskyldumeðlim, kennara, yfirmann eða lögreglu, í þeirri merkingu að bera virðingu fyrir manneskju sem býr yfir ákveðinni þekkingu og valdi. Og stundum er talað um virðingu í tengslum við mannréttindi, til að færa rök fyrir því að hver og einn eigi skilið að upplifa öryggi og taka ákvarðanir varðandi sitt eigið líf.

sýna meira

Hér erum við hinsvegar að tala um virðingu út frá samskiptum og heilbrigðum samböndum. Virðing er ein af undirstöðunum í nánum og innilegum samböndum. Þá eru samskiptin á jafningjagrundvelli, sem þýðir að hvorugur aðili hefur yfirráð yfir hinum og báðir eiga sér eigið líf og áhugamál. Virðing þýðir líka að þótt við séum ekki endilega sammála þá treystum við makanum og þeim ákvörðunum sem hann tekur. Þetta traust magnast með tímanum, svo þú skalt leyfa sambandinu að vaxa og dafna á meðan þú kynnist manneskjunni betur.

Hvernig sýni ég virðingu í heilbrigðu sambandi?

Virðing endurspeglast í því hvernig þið hegðið ykkur í daglegum samskiptum. Þótt það sé eðlilegt að vera ósammála en það er mikilvægt að sýna makanum virðingu með því að taka tillit til skoðana og hlusta með skilningi. Virðing snýst hvorki um að stjórna né neyða aðra manneskju til að gera eitthvað sem hún vill ekki. Gagnkvæm virðing gengur út á að fá að vera eins og þú ert og upplifa ást út frá því.

Virðing er að:

 • ‍Tala saman á opinskáan og hreinskilinn hátt
 • Hlusta
 • Taka mark á tilfinningum og þörfum hvort annars
 • Komast að samkomulagi
 • Tala fallega við og um hvort annað
 • Gefa og fá rými til að sinna áhugamálum, fjölskyldu og vinum
 • Styðja við áhugamál, atvinnu- og námsferil hvort annars
 • Byggja hvort annað upp með hrósi og stuðningi
 • Virða mörk hins aðilans öllum stundum

Sjálfsvirðing

Í heilbrigðu sambandi er mikilvægt að bera virðingu fyrir makanum sínum. Það er þó ekki síður mikilvægt að bera virðingu fyrir sjálfu sér, hvort sem þú ert í sambandi eða ekki. Sjálfsvirðing er lykilatriði ef þú vilt byggja upp öryggi í sambandi og viðhalda heilbrigðum samskiptum við fólkið í kringum þig.

Hvað er sjálfsvirðing? Sjálfsvirðing er að taka sjálfu þér eins og þú ert og bera virðingu fyrir þinni innri manneskju. Málið snýst ekki um að vera fullkominn einstaklingur heldur að bera líka virðingu fyrir eigin göllum. Þú skiptir máli, einfaldlega af því að þú ert þú, og öll eigum við rétt á heilbrigðri sjálfsmynd. Sjálfsvirðing felur í sér að sýna sjálfu þér samkvæmi í orði og gjörðum og reyna að hafa ekki of miklar áhyggjur af því hvað öðrum finnist. Sjálfsvirðing felur í sér að koma vel fram við líkama og sál, hvort sem það þýðir að rækta áhugamálin, passa upp á að fá næringu, hreyfa sig eftir því sem þér finnst þægilegt, leita hjálpar þegar þú þarft á því að halda, rækta trúna sína, gæta þess að taka ekki of mörg verkefni að sér, passa að fá stund út af fyrir sig, eða bara hvað sem er sem lætur þér líða vel í hinu daglega amstri.

sýna minna

Samskipti

Opinská og heiðarleg samskipti eru nauðsynleg öllum samböndum. Hér fyrir neðan eru nokkur ráð til að viðhalda heilbrigðum samskiptum.

ATH. Ef þú ert í ofbeldisfullu sambandi getur verið að þessir punktar eigi ekki við. Ef þig grunar að einhver þessara ráða gætu valdið þér óþægindum eða skaða skaltu ekki notast við þau.

sýna meira

Til að stuðla að heilbrigðum samskiptum skaltu reyna að:

 • Finna rétta tímann. 
  Ef eitthvað er að angra þig við sambandið eða samskipti ykkar skaltu finna rétta tímann til að ræða málið. Reyndu að finna tíma þegar þið eruð ekki að flýta ykkur, í uppnámi eða annars hugar. Ef þið eruð upptekin er gott að koma sér saman um tíma þegar þið getið sest niður og rætt málin.

 • Talið saman augliti til auglitis. 
  Forðastu að ræða alvarleg mál í skrifuðum texta. Það er auðvelt að misskilja skilaboð eða tölvupóst því þú sérð ekki manneskjuna sem þú ert að tala við. Til að forðast misskilning getur verið betra að ræða málið augliti til auglitis. Ef þú ert ekki viss hvað þú vilt segja eða hvernig þú vilt segja það geturðu prófað að skrifa það niður fyrirfram og lesa síðan upphátt. Athugaðu samt að þetta á ekki endilega við ef þú ert í óheilbrigðu sambandi eða ofbeldissambandi og treystir þér ekki að tala við manneskjuna í eigin persónu.

 • Ekki ráðast á einstaklinginn. 
  Jafnvel þegar við meinum vel eigum við það til að orða hlutina harkalega. Yfirlýsingar um að hin manneskjan sé svona eða hinsegin geta hljómað eins og árás og líklegra að manneskjan fari í vörn, sem kemur í veg fyrir gagnlegar samræður. Prófaðu í staðinn að tala út frá sjálfu þér – t.d. með því að segja: „Mér líður eins og við höfum ekki verið náin upp á síðkastið,“ í staðinn fyrir: „Þú hunsar mig.“

 • Hafðu hreinskilni að leiðarljósi. 
  Best er þegar þið eruð sammála um að vilja eiga í hreinskilnum samskiptum. Stundum er sannleikurinn særandi, en ef þið viljum byggja upp heilbrigt samband verðum þið að geta rætt saman.

 • Íhugaðu að bíða í sólarhring.
  Ef eitthvað hefur reitt þig til reiði er gott að ræða það saman. Íhugaðu hins vegar að láta reiðina renna af þér áður en farið er í það að ræða málið. Taktu síðan samtalið ef þig langar ennþá til þess sólarhring síðar. Hafðu í huga að enginn getur lesið hugsanir þínar og því er nauðsynlegt að tjá þær. Þegar þú nefnir það sem þér liggur á hjarta gefurðu makanum tækifæri til að íhuga hegðun sína. Hins vegar er ekki hjálplegt að draga fram hluti sem gerðust í fortíðinni og tengjast ekki því sem verið er að ræða um.

Hvernig er best að tækla samræður þegar ég reiðist? 
Það er eðlilegt að finna við og við til reiði, enda er hún mannleg tilfinning. Hins vegar er mikilvægt að leysa úr deilum á heilbrigðan og uppbyggilegan hátt. Ef þú finnur að reiðin er að taka yfir gæti eftirfarandi hjálpað til:

 • Stoppaðu. 
  Ef þú kemst í mikið uppnám, stoppaðu aðeins og dragðu andann djúpt. Láttu makann vita að þú viljir taka þér smá hlé áður en þið haldið áfram að tala saman. Taktu þér tíma í að róa þig niður, til dæmis með því að horfa á sjónvarpið, hlusta á tónlist, fara í göngutúr, hringja í vin eða hvaðeina sem dreifir huganum.

 • Hugsaðu. 
  Eftir að þú hefur útskýrt hvernig þér líður skaltu muna að það skiptir líka máli að hlusta á það sem hin manneskjan hefur að segja. Báðir aðilar eiga skilið að tjá sína upplifun og tilfinningar í öruggu umhverfi.

Samskipti geta verið erfið. Í fyrstu virka þessi ráð kannski vandræðaleg og þvinguð. Það er allt í lagi enda geta samskipti verið flókin og erfið. En það er með þau eins og allt annað: Æfingin skapar meistarann. Ef við viljum byggja upp heilbrigt samband skiptir máli að við tjáum okkur.

Að leysa úr ágreiningi

Í öllum samböndum kemur á einhverjum tímapunkti upp ágreiningur. Með „ágreiningi“ er átt við rifrildi og ósætti af ýmsum toga. Það er allt í lagi að verða ósammála, enda hefurðu rétt á þinni eigin skoðun þótt hún stangist á við skoðun makans, vina eða fjölskyldu. Hins vegar er mikilvægt að sýna fólki virðingu þegar þið ræðið mál sem þið eruð ósammála um. Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi um það hvernig hægt er að leysa úr ágreiningi.

Ágreiningur innan heilbrigðs sambands
Ef þú ert í heilbrigðu sambandi er lykilatriði að tala saman. Góð samtöl og samskipti skapa betri tengsl og meiri skilning á líðan ykkar beggja. Með því að takast á við ágreiningsmál og leysa úr þeim í sameiningu leggið þið grunn að þroskuðu og heilbrigðu sambandi.

Það er ósköp eðlilegt að upp komi ágreiningur, en það getur líka verið til merkis um að sambandið sé ekki að virka. Ef þið eruð til dæmis ósammála um hvaða mynd þið ættuð að horfa á, hvaða vini þið eigið að hitta í kvöld eða hver eigi að vaska upp, sem myndi teljast minniháttar ágreiningur, skaltu prófa að hafa þessi ráð í huga:

 • Settu mörk. 
  Við eigum öll eiga skilið að komið sé fram við okkur af virðingu – jafnvel þegar upp kemur rifrildi eða ágreiningur. Ef makinn uppnefnir þig eða niðurlægir á annan máta er mikilvægt að þú komir því til skila að slík hegðun er ekki liðinn í ykkar sambandi. Ef makinn hættir ekki þessari hegðun skaltu koma því á framfæri að þú viljir ekki halda samræðunum áfram í þessum tóni og fara í burtu.

 • Finndu hina raunverulegu ástæðu ágreiningsins. 
  Stundum er rót ágreinings allt önnur en það sem rifist er um, til dæmis að öðrum einstaklingnum finnist ekki tekið mark á þörfum hans í sambandinu eða að hann fái ekki að tjá skoðanir sínar og tilfinningar. Ef þú til dæmis reiðist yfir því að makinn fari sjaldan út með ruslið getur raunverulega ástæðan verið sú að þér líður eins og þú takir alla ábyrgð á heimilinu og að makinn leggi sig ekki nægilega mikið fram. Gott er að velta því fyrir sér hver raunverulega ástæðan gæti verið og tala saman um það.

 • Verið sammála um að vera ósammála. 
  Ef þið getið ekki komist að samkomulagi eða niðurstöðu er stundum best að hvíla umræðuefnið. Þið getið ekki verið sammála um allt. Einbeitið ykkur að því sem skiptir máli. Ef umræðuefnið liggur þungt á þér og þú getur ekki hugsað þér að „vera sammála um að vera ósammála“ getur verið að þið eigið einfaldlega ekki saman.

 • Komist að samkomulagi. 
  Í heilbrigðu sambandi skiptir máli að komast að samkomulagi um ákveðin mál. Langar makann í kínverskan mat en þig í indverskan? Sættist á að fá ykkur kínverskan í dag og indverskan á morgun. Finnið milliveginn sem gerir ykkur báðum kleift að vera sátt við útkomuna.

 • Íhugaðu allar hliðar málsins. 
  Er deilumálið mikilvægt? Hefur það áhrif á það hvernig þér líður gagnvart hinni manneskjunni? Ertu að brjóta gegn þínum gildum í lífinu? Ef svarið er já, þá er mikilvægt að þú standir fast á þínu. Ef ekki, þá er þetta hugsanlega mál sem hægt er að komast að samkomulagi um. Íhugaðu líka það sem hinn aðilinn hefur að segja. Af hverju er hann í uppnámi? Geturðu séð málið frá hans sjónarmiði? Er óvenjulegt að svona mál komi honum í uppnám? Komist þið oftast að samkomulagi um önnur mál? Ertu nokkuð tillitslaus við hann?

Enn að rífast?
Ef þú hefur reynt þessi ráð en þið rífist samt reglulega skaltu hugsa vel og vandlega hvort þetta samband sé að virka fyrir ykkur. Þú átt skilið að vera í sambandi þar sem er ekki stöðugur ágreiningur og þú þarft ekki hvað eftir annað að verja þínar skoðanir og líðan.

Ágreiningur innan óheilbrigðs sambands
Þótt það sé eðlilegt að upp komi ósætti í sambandi á það aldrei að snúast upp í persónulegar árásir eða niðurlægingu, hvort sem þær beinast að þér eða öðrum í kringum þig. Ef þú getur ekki tjáð þínar skoðanir og líðan án þess að búast við neikvæðum viðbrögðum getur verið að um óheilbrigt samband sé að ræða.

Mundu að ef manneskjan reynir að stjórna þér, spila á samvisku þína og gera lítið úr þínum skoðunum eða líðan (eða hegðar sér á einhvern svipaðan hátt) er það til merkis um að sambandið sé óheilbrigt. Þú getur prófað að máta þína upplifun við þessar spurningar:

Er maki þinn, vinur eða fjölskyldumeðlimur í uppnámi vegna þess að:

 • Þú fórst á æfingu eða í bíó með vinum þínum í staðinn fyrir að verja tíma með viðkomandi?
 • Viðkomandi skoðaði símann þinn og var ekki ánægður með þá sem þú hefur verið að hringja í/spjalla við?
 • Þú ert að hanga með vinum þínum en hinn aðilinn heldur að þú sért að halda framhjá?
 • Þú ert ekki til í að stunda kynlíf?
 • Þú ert að reyna að læra en hin manneskjan vill að þið talið saman?
sýna minna