Fáðu hjálp

Stígamót eru grasrótarsamtök sem berjast gegn kynferðisofbeldi. Við bjóðum upp á þjónustu fyrir fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi, til að hjálpa því að vinna úr afleiðingum þess og bæta lífsgæði sín. Stígamót beita sér líka fyrir breyttu og bættu samfélagi þar sem kynferðisofbeldi er tekið alvarlega og hagsmunir brotaþola eru hafðir að leiðarljósi í umræðu um og meðferð kynferðisbrotamála. Nánari upplýsingar um sögu Stígamóta og starfsemina er að finna á heimasíðunni okkar.

Að fá hjálp á Stígamótum

Fólk af öllum kynjum sem er orðið 18 ára er velkomið á Stígamót. Ef þú ert 17 ára eða yngri færðu aðstoð í gegnum barnavernd en lesa má meira um það hér að neðan. Til að fá þjónustu á Stígamótum er best að hringja eða skrifa okkur tölvupóst og panta tíma. Við reynum alltaf að koma öllum sem fyrst að en stundum er 2-4 vikna bið. Þú færð viðtal hjá ráðgjafa sem tekur á móti þér á Stígamótum og býður þér inn í viðtalsherbergi. Við reynum að hafa kósý og notalega stemmningu hjá okkur. Þegar þú kemur í viðtalið ræðurðu ferðinni. Stundum byrjar fólk á að tala um hvernig því líður, sumir fara beint í segja frá kynferðisofbeldinu sem það varð fyrir og aðrir biðja ráðgjafann um að útskýra ákveðna hluti, t.d. varðandi kæruferli eða afleiðingar kynferðisofbeldis. Sumir eru ekki vissir hvað þeir eiga kalla það sem gerðist en líður samt illa með það og þá er hægt að fá hjálp við að skilgreina atburðinn. Hugmyndin er að þetta sé hjálp til sjálfshjálpar með það að markmiði að þér líði betur.

Öll þjónusta á Stígamótum er ókeypis. Það er hægt að hafa samband við okkur nafnlaust, við erum ekki með númerabirti og þú þarft ekki gefa upp nafn ef þú vilt það ekki. Ráðgjafarnir okkar eru allir háskólamenntaðir og hafa menntun á ólíkum sviðum s.s. félagsráðgjöf, sálfræði, náms- og starfsráðgjöf, fjölskyldumeðferð, kynjafræði og listmeðferð. Allir hafa þeir mikla reynslu af vinnu með brotaþolum kynferðisofbeldis.

Mörgum finnst erfitt að leita sér hjálpar og það er allt í lagi. Við minnum þig á að ofbeldi sem þú verður fyrir er aldrei þér að kenna. Stundum finnst fólki það sem það lenti í ekki nógu alvarlegt til að fá aðstoð. Leyfðu þér að njóta vafans, fáðu viðtal og kannski er niðurstaðan sú að þér líði vel og þurfir ekki meiri hjálp en kannski er það ekki svo einfalt. Það skiptir ekki máli hversu langt er síðan ofbeldinu var beitt, það er aldrei of seint að leita hjálpar!

Sími: 562-6868
Netfang: stigamot@stigamot.is
FB: facebook.com/stigamot (hægt að skrifa okkur skilaboð í gegnum FB)
Netspjall við ráðgjafa: https://svarbox.teljari.is/?c=1147
Heimilisfang: Laugavegur 170, Reykjavík

Að fá hjálp ef þú ert yngri en 18 ára

Ef þú ert yngri en 18 ára færðu aðstoð við að vinna úr afleiðingum ofbeldis hjá barnavernd. Sumum unglingum finnst kannski skrítið að leita til barnaverndar og upplifa sig nær því að vera fullorðin en börn. Í skilningi laganna ertu samt ennþá á barnsaldri og því ber okkur sem samfélagi ríkari skylda til að vernda þig gegn ofbeldi. Barnavernd vinnur alltaf með hagsmuni þína að leiðarljósi.

Í málum sem varða ofbeldi er börnum og unglingum boðið í könnunarviðtal í Barnahúsi og fá í framhaldinu þá hjálp sem þau þurfa, t.d. í formi sálfræðiviðtala. Til að koma þessu ferli af stað þarf að hafa samband við barnavernd í því sveitafélagi sem þú býrð í. Fáðu einhvern fullorðinn til að hjálpa þér ef þú mögulega getur, t.d. foreldri, kennara, námsráðgjafa eða eldri fjölskyldumeðlim. Ef þú gerir þetta upp á eigin spýtur finnurðu upplýsingar um hvernig þú kemst í samband við barnavernd á heimasíðu sveitarfélagsins sem þú býrð í. Svo geturðu líka hringt í 112 og óskað eftir sambandi við barnavernd í þínu sveitarfélagi (það má hringja í 112 út af svona málum þó að það sé ekkert neyðarástand). Barnavernd tekur á móti tilkynningunni, mun svo líklegast boða þig í viðtal og hjálpa þér með næstu skref í Barnahús. Mundu að barnavernd vinnur fyrir þig. Ef þú óttast eitthvað varðandi það að hafa samband við barnavernd eða ert bara með einhverjar spurningar um ferlið er þér velkomið af hafa samband við okkur á Stígamótum og við getum vonandi svarað spurningum og hjálpað þér að fá þá hjálp sem þú átt rétt á.

Ef þú hefur nú þegar fengið aðstoð hjá barnavernd og málið þitt er þekkt þar er þér velkomið að koma í viðtöl hjá Stígamótum.