Traust er nauðsynlegur þáttur í heilbrigðu sambandi – en mörg okkar eiga samt erfitt með að treysta öðrum, af ýmsum ástæðum.

Að treysta einhverjum þýðir að geta reitt sig á manneskjuna, hafa trú á henni og líða vel í kringum hana, bæði líkamlega og andlega. Við byggjum smám saman upp traust á fólki sem við eigum í samskiptum við og þykir vænt um. Traust er áunnið og ekki hægt að krefjast þess að aðrir treysti þér eða að fólk sanni með tilteknum hætti að það sé traustsins virði. Að treysta annarri manneskju er ákvörðun sem hver og einn tekur.

Vert er að taka fram að hér að neðan er gengið út frá því að um par sé að ræða, þó að traust skipti auðvitað máli í samböndum af öllu tagi.

HVERNIG BYGGJUM VIÐ UPP TRAUST Í SAMBANDI?

Það tekur tíma að byggja upp traust í heilbrigðu sambandi. Oft er erfitt að átta sig á því hvenær hægt er að treysta hinni manneskjunni, sérstaklega ef um nýlegt samband er að ræða. Gott ráð er að hlusta á það sem innsæið segir þér – hefurðu góða eða slæma tilfinningu fyrir þessari manneskju? Taktu eftir því hvernig hann/hán/hún hegðar sér í kringum þig og aðra.

Í heilbrigðu sambandi er mikilvægt að treysta, að vera treyst, geta verið berskjölduð og að þora að tjá tilfinningar sínar, skoðanir og upplifanir. Það er ómögulegt að byggja upp traust ef bara annar aðilinn er til í að leggja sig fram við það. Það þarf tvo (eða fleiri) til.

AÐ VERA TIL STAÐAR

Þegar við tölum um að vera til staðar þýðir það ekki bara að vera bókstaflega á staðnum, heldur líka á tilfinningalegan hátt. Hlustið þið og styðjið hvort annað? Sýnið þið næmni fyrir vandamálum og áhyggjum hvors annars? Sýnið þið samkennd og væntumþykju? Manneskja sem er traustsins verð á að geta tjáð væntumþykju og samkennd í garð annarra. Þetta þýðir líka að þér er treyst til að vita hvað er þér fyrir bestu. Það er ekki til marks um traust ef makinn lætur eins og þú vitir ekki hvernig þér líður eða hvað sé þér fyrir bestu.

Í heilbrigðu sambandi áttu að geta treyst því að þú sért ekki í neinni hættu ef eitthvað kemur upp á. Allir eiga skilið að vera í sambandi þar sem hægt er að leysa deilur á heilbrigðan máta og af virðingu.

Ef þú vilt sýna að hægt sé að stóla á þig, skiptir öllu máli að að sýna samkvæmi í orði og gjörðum. Í upphafi sambands snýst það kannski um smávægilega hluti eins og að mæta á tilsettum tíma þegar þið hafið ákveðið að hittast. Sömuleiðis er mikilvægt að virða alltaf mörk og halda trúnaði. Svona lagað kemur hægt og rólega eftir því sem sambandið þróast en aðal málið er að báðir (allir) aðilar séu samkvæmir sjálfum sér, sem þýðir að þeir standa við það sem þeir segja, og meina það sem þeir segja – ekki bara stundum, heldur alltaf.

Við höfum öll hitt fólk sem segir eitt og gerir annað. Í sambandi gengur svoleiðis hegðun ekki því hún grefur undan traustinu. Þú getur ekki sagst elska manneskju og brotið svo trúnað og mörk eða jafnvel beitt ofbeldi. Ef þú elskar einhvern þá brýturðu ekki á viðkomandi.

VANTRAUST SKAPAR EKKI TRAUST

Margir sem leita til Stígamóta segja frá því að makinn sé stöðugt að athuga og spyrja með hverjum þau séu, hvað þau séu að gera, og reyni jafnvel að stjórna því hvern þau hitta. Slík hegðun er ekki í lagi og sýnir skort á trausti. Mundu, þú velur að treysta! Að treysta hinum aðilanum er mikilvægur þáttur í sambandinu, líka ef þið eruð í fjarsambandi þar sem þúsundir kílómetra skilja að. Þegar traust er til staðar er ekki þörf á að fylgjast með eða stjórna makanum. Auk þess þýðir það að makinn þarf ekki að „sanna“ ást sína eða tryggð. Ef þú treystir einhverjum þá treystirðu viðkomandi, burtséð frá því hvernig hann ver tíma sínum, með hverjum og hvar. Það þýðir líka að þú treystir því að ef einhver utanaðkomandi aðili myndi vilja skaða sambandið þá myndi maki þinn koma í veg fyrir það, upp á eigin spýtur.

Ef einhver sem þér þótti (og þykir jafnvel ennþá) vænt um braut á þér er skiljanlegt að þú eigir erfitt með að treysta öðrum. Mundu samt að þrátt fyrir að þú vitir hversu sárt það er þegar einhver bregðist trausti þínu þá þýðir það ekki að engum sé treystandi. Það er mikilvægt að líta á annað fólk út frá orðum þess og gjörðum, en ekki orðum og gjörðum einhverra sem brugðust þér. Það er skiljanlegt að þetta hafi áhrif á það hvernig þú nálgast og upplifir aðra, en það afsakar þó ekki óheilbrigt samskiptamynstur af þinni hálfu eða stöðugt vantraust í garð nýrra maka. Þú átt ekki rétt á að vera stöðugt að tékka á manneskjunni og krefjast þess að hún sanni að hún sé trú þér. Eins og við höfum sagt byggist traust upp með tímanum. Þegar fólk byrjar í nýju sambandi tekkur það sameiginlega ákvörðun um að láta á það reyna.

Ef þér líður eins og eldra samband eða samskipti við einstakling sem brást trausti þínu geri þér erfitt að byggja upp heilbrigt samband gæti það verið um að þú sért ekki tilbúin/n/ð í nýtt samband. Að treysta öðrum felur líka í sér að treysta sjálfu sér. Það að einhver bregðist okkur getur leitt til þess að við vantreystum okkur sjálfum og okkar eigin innsæi. Mundu að þótt einhver hafi svikið þig var það ekki þér að kenna – þú getur ekki tekið ábyrgð á því. Þú getur hins vegar tekið ábyrgð á því að vinna úr þessari upplifun svo þér líði vel og þú getir átt í heilbrigðum samskiptum. Stundum getur verið gott að leita sér hjálpar við að koma á heilbrigðari samskiptum við sjálfan sig og aðra í kringum sig.