Öll verðskuldum við að eiga í öruggu og heilbrigðu ástarsambandi. Margir halda að ofbeldi sé ekki til í hinsegin samböndum en það er því miður ekki rétt.

Samkynhneigðir, tvíkynhneigðir, trans fólk, kvár/kynsegin fólk, intersex fólk og öll önnur sem skilgreina sig undir hinsegin regnhlífinni geta upplifað ofbeldi í samböndum rétt eins og fólk í sís-gagnkynja samböndum. Birtingarmyndir ofbeldis í hinsegin samböndum geta hins vegar verið frábrugðnar því sem fyrirfinnst í sís-gagnkynja samböndum.

‍HINDRANIR FYRIR UNGT HINSEGIN FÓLK: 

Það er því miður svo að fordómar og staðalmyndir samfélagsins um hinsegin fólk geta haft áhrif á hinsegin sambönd, þau geta komið í veg fyrir að fólk þori að koma út og vera það sjálft, að fólk þori ekki að leita sér aðstoðar vegna (mögulegra) fordóma, að fólk átti sig ekki á því að ofbeldi og ójafnvægi geti verið í hinsegin samböndum, að fólk taki þátt í einhverju því það heldur að hinsegin sambönd og kynlíf eigi að vera með ákveðnum hætti og margt fleira. Ofbeldisfull manneskja getur nýtt sér fordóma og staðalmyndir um hinsegin fólk gegn maka sínum.

  • Ofbeldisfull manneskja gæti nýtt sér hinseginleika þinn til að gera lítið úr þér, t.d. að uppnefna þig út frá hinseginleika þínum, að gera grín að kyntjáningu þinni, að nýta sér fortíð þína (t.d. áður en þú komst út úr skápnum) til að gera lítið úr þér, að auka á kynama þínum með athugasemdum um útlit, fornafn, nafn eða annað. Einnig gæti hún hótað að segja frá hinseginleika þínum eða out-að þig fyrir þeim sem vita ekki af hinseginleika þínum.

Þetta er ekki í lagi og ætti enginn að þurfa að búa við þann ótta að vera out-að, né á hinseginleiki þinn að vera nýttur gegn þér eða álitinn neikvæður. Þú átt rétt á því að koma út þegar þér hentar og þinn hinseginleiki er eitthvað sem þú átt að geta notið og borið með stolti.

  • Ofbeldisfull manneskja gæti reynt að nýta sér meiri reynslu sína af hinsegin samböndum eða hinsegin samfélaginu (t.d. ef hún kom út á undan þér) til að sannfæra þig um að gera hluti sem þú vilt ekki og fara yfir þín mörk. Manneskjan gæti líka nýtt sér staðalmyndir um kynlíf hinsegin fólks til að þrýsta á þig til að gera eitthvað sem þú vilt ekki.

Þetta er ekki í lagi. Meiri reynsla ætti frekar að leiða til þess að manneskjan viti betur, virði mörk þín og vilji byggja upp traust í stað þess að brjóta það niður. Svo er engin ein leið til að vera hinsegin eða stunda hinsegin kynlíf, staðalmyndir eiga ekki að stjórna ferðinni, heldur átt þú og maki þinn að stýra þessa í sameiningu.

  • Ofbeldisfull manneskja gæti líka reynt að sannfæra þig um að engin muni trúa þér og því að hún sé að beita þig ofbeldi því fólk telur almennt að ofbeldi eigi sér ekki stað í hinsegin samböndum, þá sérstaklega í samkynja samböndum. Einnig að fólk telji að það sé alltaf stærri aðilinn sem beitir ofbeldi.

Þetta er ekki rétt. Ofbeldi á sér stað í hinsegin samböndum, óháð kyni þeirra sem eru í sambandinu og hefur stærð og styrkur lítið með það að gera. Langflestir sem starfa á sviði ofbeldismála vita þetta.

  • Ofbeldisfull manneskja gæti reynt að sannfært þig um að segja ekki frá ofbeldinu því það mynda líta illa út fyrir hinsegin samfélagið, þar sem hinsegin fólk er enn að berjast fyrir virðingu og tilverurétti.

Þetta er hvorki í lagi né rétt. Hinsegin fólk er ekki fullkomið frekar en annað og er ósanngjarnt að gera kröfu um það. Að greina frá ofbeldi og ræða það er mikilvægt og virðingavert, hvort sem er hjá hinsegin samfélaginu eða öðrum hópum samfélagsins og getur leitt til þess að bæta úrræði og umræðuna um ofbeldismál.

  • Ofbeldisfull manneskja gæti enn verið í skápnum og reynt að sannfæra þig um að þú munir eyðileggja fyrir henni ef þú segir frá ofbeldinu.

Þetta er ekki í lagi. Það er ofbeldið sem er að eyðileggja og er það á ábyrgð ofbeldisfullu manneskjunnar. Að biðja þig um að þegja er enn ein leiðin til að beita þig ofbeldi. Þú getur leitað þér aðstoðar og komið þér úr sambandinu án þess að segja frá hinseginleika viðkomandi, en það að ofbeldisfull manneskjan er enn í skápnum má aldrei verða til þess að þú segir ekki frá.

  • Ofbeldisfull manneskja gæti verið í sama vinahópi og þú og reynt að sannfæra þig um að vinirnir munu ekki trúa þér, eða þá að þú munir valda veseni og óþægindum í vinahópnum ef þú segir frá ofbeldinu.

Þetta er ekki í lagi. Það er vissulega alltaf vont og erfitt þegar upp kemst um ofbeldi, en það er á ábyrgð þess sem beitir því, ekki þeim sem segir frá. Það er gott að hafa það í huga og minna vinahópinn á það.

Óháð öllum þeim hindrunum sem taldar eru upp hér að ofan átt þú skilið að finna til öryggis og upplifa heilbrigði í nánum samböndum. Stígamót bjóða upp á ókeypis viðtalstíma þar sem hægt er að ræða við óháðan aðila, og ráðgjöf á nafnlausu netspjalli. Samtökin ‘78, hagsmunasamtök hinsegin fólks á Íslandi, bjóða einnig upp á ókeypis tíma hjá ráðgjöfum sem sérhæfa sig í hinsegin málefnum.