Hefurðu einhvern tíma pælt í af hverju fatadeildum fyrir ungabörn er skipt upp í stráka- og stelpudeildir sem eru annars vegar fullar af bláum fötum og hins vegar bleikum? Eða af hverju það er töff þegar stelpur hafa áhuga á fótbolta og tölvuleikjum en ekki töff þegar strákar hafa áhuga á ballett og förðunardóti?

Við búum í samfélagi sem er uppfullt af hugmyndum um kyn og hvaða áhrif kyn hafi á áhugamál okkar, skoðanir og langanir. Kynhlutverk eru væntingar sem bornar eru til okkar út frá kyni og reglum kynjakerfisins, til dæmis hvernig við eigum að klæða okkur, tala, bera okkur, eiga í samskiptum við aðra og hvaða hlutverkum við gegnum í skóla, heima fyrir, í íþróttum o.s.frv.

Samfélagsgerðin okkar er mjög kynjuð og gefur því sem gæti talist karllægt meira vægi og virðingu en því sem gæti talist kvenlegt. Þetta gerir það að verkum að margt sem telst tilheyra konum eða þykir kvenlegt að einhverju leyti er álitið neikvætt eða niðurlægjandi. Á móti er margt sem telst tilheyra körlum eða þykir karllægt að einhverju leyti álitið jákvætt og eftirsóknarvert. Dæmi um þetta er að ef stelpa er „strákastelpa“, gengur í strákafötum og er með bilaða bíladellu þykir það töff, en ekki eins töff ef strákur er „stelpustrákur“, gengur í kjólum með naglalakk og veit fátt skemmtilegra en að blanda saman mismunandi bleikum tónum.

Þessi viðhorf hafa einnig áhrif á okkur þegar við eldumst og verða æ rótgrónari í huga okkar, jafnvel þannig að við setjum ekki spurningarmerki við þessi hlutverk og finnst þau fullkomlega sjálfsögð. Við kennum jafnvel börnunum okkar sömu viðhorf og viðhöldum þeim í samskiptum við aðra. Þessi rótgróna hugsun smitast einnig yfir í aðra kima samfélagsins og hefur áhrif á það hver fær hvaða vinnu, hvað fólk fær í laun og þar fram eftir götunum. Til dæmis er hægt að nefna að atvinnukarlar í fótbolta hafa oft mun hærri laun en atvinnukonur og fá meiri athygli fjölmiðla þótt þau keppi samkvæmt sömu stöðlum. Þessar rótgrónu hugmyndir hafa einnig áhrif á það hvaða nám okkur finnst við hæfi að stunda og í hvaða starfsstétt okkur finnst við eiga heima. Mörgum finnst t.d. ennþá skrýtið þegar strákur velur að læra hjúkrun og stelpa velur að læra pípulagningar. Þessi kynjaða hugsun gengur jafnvel svo langt að hafa áhrif á hvaða lög eru samþykkt og hvaða pólitísku málefni eru talin mikilvæg.

Allt hefur þetta svo áhrif á okkur sem einstaklinga – bæði hvernig við lítum á okkur sjálf og hvernig aðrir líta á okkur út frá því hvers kyns við erum. Barátta femínista snýst að miklu leyti um að kyn skipti ekki máli -, þ.e. að allir einstaklingar fái að njóta sín á sinn hátt og að væntingar til fólks stjórnist ekki af kyni. En þar sem þessar hugmyndir eru svo sterkar og hafa mótað samfélagið okkar má segja að kynjamisrétti sé rótgróið og kerfisbundið. Á þessu vekja femínistar athygli á og leggja sig fram um að breyta kynjuðum viðhorfum með ýmsum aðgerðum. Hér getur þú frætt þig meira um jafnréttisbaráttu.