Fjárhagslegt ofbeldi getur til dæmis falist í því að makinn ákveður hvað þú mátt og mátt ekki kaupa, eða skyldar þig til að hleypa honum inn á bankareikninginn þinn. Enginn hefur rétt á að nota þína peninga eða stjórna því hvernig þú ráðstafar þeim, jafnvel þótt þið eigið í ástarsambandi.

DÆMI UM FJÁRHAGSLEGT OFBELDI

  • Að gefa þér „vasapening“ og fylgjast svo náið með því hvað þú kaupir
  • Að millifæra launin þín inn á sinn bankareikning og neita þér um aðgang að honum
  • Að banna þér að vinna eða takmarka vinnutíma þinn
  • Að koma í veg fyrir að þú komist í vinnuna með því að taka af þér bíl eða bíllykla
  • Að verða til þess að þú missir vinnuna með því að áreita þig, samstarfsmenn þína eða yfirmenn
  • Að fela eða eyðileggja reikningana þína
  • Að taka lán í þínu nafni án þíns leyfis
  • Að versla með kortinu þínu án þíns leyfis
  • Að færa þér gjafir eða borga fyrir þig mat og búast við einhvers konar greiða frá þér í staðinn
  • Að nota peninga til að stjórna þér því þú hefur ekki eins mikið á milli handanna

ÉG UPPLIFI FJÁRHAGSLEGT OFBELDI

Ef þú kannast við það að maki þinn beiti einhverjum af þeim aðferðum sem taldar voru upp gætir þú verið í óheilbrigðu eða ofbeldisfullu sambandi. Fjárhagslegt ofbeldi fléttast oft saman við líkamlegt og/eða andlegt ofbeldi. Ef þú hefur ekki stjórn á þínum eigin fjármunum, eða makinn hefur fjarlægt peninga af bankareikningi þínum, gæti þér fundist erfitt að yfirgefa sambandið.

Það er hjálplegt að ræða málið við einhvern sem þú treystir, líkt og vin eða fjölskyldumeðlim. Þá gæti verið gagnlegt að tala við óháðan aðila, t.d. námsráðgjafa, skólasálfræðing, lögfræðing, samtök sem berjast gegn ofbeldi eða félagsþjónustu.