Drusluskömmun er eitt af þeim viðhorfum sem einkenna nauðgunarmenningu og byggir á hugmyndum kynjakerfisins. Drusluskömmun er þegar lítið er gert úr konum því þær klæða sig á ákveðinn hátt, bera sig með tilteknum hætti, sofa hjá ákveðið mörgum eða hafa mikinn áhuga á kynlífi. Skilaboðin sem kynjakerfið sendir okkur eru á þá leið að konur eigi að klæða sig og hegða sér á tiltekinn hátt sem telst „viðeigandi“.

Þær eigi að hafa mátulega mikinn áhuga á kynlífi en ekki of mikinn og alls ekki að sofa hjá mörgum, því þá séu þær druslur. Það skiptir hins vegar engu máli hvernig við klæðum okkur, hvort við höfum mikinn áhuga á kynlífi eða hvað við sofum hjá mörgum – það er okkar val. Það hefur enginn rétt á því að gera lítið úr okkur eða telja okkur trú um að við séum minna virði fyrir vikið.

Drusluskömmun er líka oft beitt í niðurlægjandi tilgangi, burtséð frá því hvort manneskjan hafi yfirhöfuð sofið hjá mörgum eða uppfyllt þessa staðalímynd druslunnar. Sumar hafa lent í því að vera stimplaðar druslur eftir að bólfélagi braut trúnað eða kjaftasögum var komið á kreik. Þess vegna er svo mikilvægt að útrýma þeirri hugmynd að fólk geti verið druslur. Í Druslugöngunni höfum við til dæmis séð fólk merkja sig með stolti sem druslur – þannig hefur það eignað sér orðið, tekið valdið í sínar hendur og þá er ekki hægt að nota orðið í niðrandi tilgangi lengur.