Það er erfitt að horfa upp á það þegar einhver sem þér þykir vænt um skaðar fólkið í kringum sig. Þú gætir jafnvel átt erfitt með að viðurkenna að manneskjan beiti ofbeldi eða eigi í óheilbrigðum samskiptum.

‍Það er samt þannig að hlutleysi hjálpar aldrei brotaþola, heldur styður gerandann.

HVAÐ GET ÉG GERT?

Eina leiðin til að gera jákvæðar breytingar á hegðunarmynstri í ofbeldissambandi er að gerandinn taki ábyrgð á gjörðum sínum og hegðun. Þú getur hvatt manneskjuna til að átta sig og breyta samskiptamynstri sínu. Það getur reynst erfitt fyrir þann sem beitir ofbeldi að viðurkenna að það er ákvörðun og því beri hann ábyrgð á því. Ástvinur í þeirri stöðu gæti leitað til þín í von um að réttlæta hegðun sína – en mundu að ofbeldi þrífst á stjórnun. Ekki styðja við ofbeldið eða afsaka þessa hegðun á neinn hátt. Það þýðir ekki að þú snúist gegn ástvini þínum heldur ertu að hjálpa honum að mynda heilbrigðara samband.

  • Lærðu að þekkja hættumerki ofbeldis svo þú getir tekið eftir þeim í samskiptum ástvina þinna.
  • Ástvinur þinn gæti reynt að kenna maka sínum um ofbeldið. Ekki taka þátt í því að réttlæta eða afsaka ofbeldi.
  • Reyndu að hjálpa ástvini þínum að sjá að hegðunin er skaðleg og skilja hvernig þolandanum líður. Ef ástvinurinn reynir að gera lítið úr hegðun sinni eða tilfinningum þolandans, stattu þá með þolandanum. Þögn og hlutleysi er það sama og að standa með gerandanum.
  • Ef þú heyrir af ofbeldi eða annarri óæskilegri hegðun hjá ástvini skaltu ekki hunsa það. Ef þú og aðrir í lífi gerandans standið þegjandi hjá hjálpar það honum að réttlæta hegðun sína fyrir sjálfum sér.
  • Ábyrgðin er hjá gerandanum. Hann verður að taka ábyrgð á hegðun sinni og gjörðum og leita sér hjálpar til að takast á við sitt óheilbrigða samskiptamynstur.
  • Ef gerandinn ákveður að leita sér hjálpar skaltu vera til staðar ef þú treystir þér til þess. Það getur reynst erfitt að uppræta samskiptamynstur sem fólk hefur vanist árum saman.
  • Minntu ástvin þinn á að með því að breyta hegðun sinni stuðli hann að heilbrigðara sambandi við sjálfan sig og aðra.
  • Vertu fyrirmynd með því að leggja áherslu á jákvæð, uppbyggileg og heilbrigð samskipti í kringum þig.