BIRTINGarmyndir
ofbeldis

Er þetta ofbeldi?

Ofbeldi í sambandi einkennist af hegðunarmynstri sem gengur út á að stjórna, hræða og niðurlægja makann til að ná yfirráðum og viðhalda stjórn. Þótt við skilgreinum ofbeldi í sambandi sem hegðunarmynstur þýðir það ekki að ef það gerist „bara” einu sinni kallist það ekki ofbeldi – það þýðir einfaldlega að við gerum ráð fyrir því að ofbeldi í samböndum birtist í flestum tilfellum sem endurtekin ofbeldishegðun sem getur stigmagnast með tímanum. Til að gera sér betur grein fyrir því hvernig slíkt hegðunarmynstur lítur út þarf að þekkja hættumerki ofbeldis.

sýna meira

Hættumerki ofbeldis í samböndum

Segja má að samskipti í samböndum spanni ákveðið róf: Heilbrigð samskipti – óheilbrigð samskipti – ofbeldi. Það getur reynst erfitt að sjá hvenær hegðun hins aðilans fer frá því að vera heilbrigð yfir í að vera óheilbrigð og jafnvel ofbeldisfull. Hér má sjá nokkur hættumerki sem geta gefið til kynna að sambandið sé á rangri leið:

 • ‍Skoðar símann þinn eða tölvupóst án leyfis
 • Niðurlægir þig
 • Yfirgengileg afbrýðisemi eða óöryggi
 • Missir stjórn á skapi sínu
 • Einangrar þig frá fjölskyldu eða vinum
 • Ósannar ásakanir
 • Skapsveiflur
 • Líkamlegt ofbeldi
 • Sýnir ráðríki og vill stjórna
 • Segir þér hvað þú átt að gera eða hvernig þú átt að haga þér
 • Pressar á þig eða neyðir þig til að stunda kynlíf

Hafðu í huga að þetta eru einungis örfá dæmi um óheilbrigð samskipti. Lestu þér til hér á fræðsluvefnum okkar um heilbrigð samskipti, leiðir til að leysa úr ágreiningi, einkenni ofbeldissambanda og hvað er hægt að gera.

Hverjar eru birtingarmyndir ofbeldis í samböndum?

Ofbeldi í sambandi er hegðunarmynstur sem felst í því að stjórna, hræða og niðurlægja makann til að ná yfirráðum og viðhalda stjórn. Margir halda að ofbeldi/misnotkun þýði alltaf að ofbeldið sé líkamlegt en svo þarf ekki að vera. Ofbeldi á sér margar birtingarmyndir og er alls ekki bara líkamlegt. Skoðaðu hlekkina hér fyrir neðan til að fræðast meira um algengar birtingarmyndir ofbeldis svo þér reynist auðveldara að bera kennsl á það. Ef þú kannast við eitt eða tvö dæmi úr þínu sambandi er það viðvörunarmerki um að ofbeldi gæti verið til staðar. Og mundu að allt ofbeldi er alvörumál. Þú átt ekki skilið að upplifa ofbeldi af neinu tagi.

sýna minna

Kynferðisofbeldi

Kynferðislegt ofbeldi er skerðing á kynfrelsi einstaklings, t.d. þegar einhverjum er þröngvað til athafna sem hann vill ekki taka þátt í eða þegar pressað er á viðkomandi að taka þátt.

sýna meira

Kynferðislegt ofbeldi og áreitni er til dæmis:

 • ‍Kossar eða snerting gegn vilja þínum
 • Harkalegar eða ofbeldisfullar kynferðislegar athafnir án þíns samþykkis
 • Nauðgun eða tilraun til nauðgunar
 • Að neita að nota smokk eða taka hann af án þess að bólfélaginn viti af því
 • Kynlíf með einhverjum sem er mjög drukkinn eða undir áhrifum fíkniefna og getur ekki veitt meðvitað, einlægt samþykki – hvort sem manneskjan er vakandi eða meðvitundarlaus
 • Að nota hótanir til að þröngva einhverjum til kynferðislegra athafna
 • Að þrýsta á einstakling að taka þátt í kynferðislegum athöfnum af einhverjum toga

Það er mjög mikilvægt að muna að þótt manneskjan hafi ekki sagt „nei“ þýðir það ekki að viðkomandi sé að segja „já“ eða hafi veitt samþykki með öðrum hætti. Þótt maður veiti ekki viðnám gagnvart kynferðislegum athöfnum sem maður vill ekki taka þátt í felst ekki sjálfkrafa í því samþykki. Allskonar kringumstæður geta valdið því að fólk upplifir sig ekki öruggt til að segja „nei” eða er hreinlega ekki í aðstöðu til að gefa samþykki, t.d. vegna ölvunar. Því er alltaf lykilatriði að vera fullviss um að meðvitað og einlægt samþykki sé fyrir öllum kynferðislegum athöfnum.

Stundum geta ógnandi aðstæður orðið til þess að fólk frýs og getur lítið hreyft sig og stundum getur það sett brotaþola í ennþá meiri hættu að veita viðnám. Sumir halda að ef brotaþoli streitist ekki á móti teljist atvikið ekki til ofbeldis. Það er ekki satt. Þetta er skemmandi mýta því hún ýtir undir sektarkennd og gerir brotaþolum erfiðara fyrir að segja frá og leita sér hjálpar. Það skiptir ekki máli hvort manneskjan var undir áhrifum, fann fyrir þrýstingi, ógnun eða fannst henni bera skylda til að láta undan – kynferðislegt ofbeldi er alltaf á ábyrgð gerandans.

Mundu

 • Allir eiga rétt á því að ákveða hvaða kynferðislegu athafnir þeir samþykkja eða samþykkja ekki.
 • Kynferðisofbeldi þarf ekki að fela í sér árás eða líkamlegt ofbeldi.
 • Flestir þolendur kynferðisofbeldis þekkja gerandann.
 • Fólk af öllum kynjum getur orðið fyrir kynferðisofbeldi.
 • Fólk af öllum kynjum geta beitt kynferðisofbeldi.
 • Kynferðisofbeldi getur átt sér stað í hinsegin samböndum, gagnkynhneigðum samböndum og hvaða sambandi sem er.
 • Kynferðisofbeldi getur átt sér stað á milli einstaklinga sem hafa áður átt í samþykktu kynferðislegu sambandi, t.d. í hjónabandi og langtímasambandi.
 • Kynlíf á að vera gott og heilbrigt! Lestu þér betur til um heilbrigð samskipti og sambönd á fræðsluvefnum okkar.

Hvað er hægt að gera?

Ef þú hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi skaltu muna að það var ekki þér að kenna. Það getur verið að þú finnir fyrir ýmsum óþægilegum og erfiðum tilfinningum en þær eru aldrei rangar. Við svona aðstæður er eðlilegt að upplifa allskonar tilfinningar. Íhugaðu hvað þú vilt gera í stöðunni. Hér fyrir neðan eru nokkrir punktar um það sem hægt er að taka til bragðs:

 • Talaðu við einhvern sem þú treystir. Eftir að hafa lent í kynferðisofbeldi finna margir fyrir ótta, sektarkennd, reiði og skömm eða eru hreinlega í áfalli. Það skiptir sköpum að hafa einhvern hjá sér sem veitir stuðning, t.d. vinkonu, vin, foreldri, kennara eða annan starfsmann í skólanum, íþróttafélaginu eða félagsmiðstöðinni þinni.
 • Þú getur fengið aðhlynningu á neyðarmóttöku Landspítalans fyrir þolendur kynferðisbrota. Þar færðu læknisskoðun, lyf við kynsjúkdómum eða til að koma í veg fyrir þungun, lögfræðilega aðstoð og tilvísun í sálfræðiþjónustu.
 • Ef þú ert 18 ára eða eldri geturðu pantað viðtal hjá ráðgjafa á Stígamótum sem aðstoðar þig við að vinna úr afleiðingum ofbeldisins.
 • Ef þú ert yngri en 18 ára geturðu fengið hjálp í Barnahúsi. Hafðu samband við barnaverndarnefnd í þínu sveitarfélagi til þess að fá frekari upplýsingar.
 • Þú getur tilkynnt ofbeldið til lögreglu.
sýna minna

Andlegt ofbeldi

Andlegt ofbeldi felur í sér hótanir, niðurlægingu, óvelkomið og yfirþyrmandi eftirlit svo sem með endalausum skilaboðum, auðmýkingu, ógnun, einangrun eða ofsóknir.

sýna meira

Andlegt ofbeldi getur líka birst á duldari hátt:

 • ‍Að uppnefna þig og gera lítið úr þér
 • Að öskra á þig
 • Að niðurlægja þig viljandi fyrir framan aðra
 • Að koma í veg fyrir að þú hittir eða talir við vini þína eða fjölskyldumeðlimi
 • Að segja þér í hverju þú átt að vera eða hvernig þú átt að haga þér
 • Að eyðileggja eigur þínar í bræðiskasti (henda hlutum, kýla í vegg, sparka í hurð o.s.frv.)
 • Að notast við samfélagsmiðla eða síma til að stjórna þér, ógna eða niðurlægja.
 • Að nota hegðun þína sem afsökun fyrir ofbeldi eða óheilbrigðri hegðun.
 • Að saka þig um framhjáhald og fyllast afbrýðisemi yfir samskiptum þínum við annað fólk
 • Að ofsækja þig
 • Að hóta að fremja sjálfsvíg til að koma í veg fyrir að þú slítir sambandinu
 • Að hóta að skaða þig, gæludýrið þitt eða fólk sem þér er annt um
 • Að láta þig efast um upplifanir þínar og tilfinningar þannig að þú heldur jafnvel að þú sért að ímynda þér ofbeldið sem þú verður fyrir
 • Að þrýsta á um kynferðislegar athafnir með því að láta þig fá samviskubit eða saka þig um barnaskap þegar þú vilt ekki gera eitthvað
 • Að hóta að opinbera einkamál þín, svo sem kynhneigð eða heimilisaðstæður
 • Að hóta að dreifa viðkvæmum myndum af þér á netinu
 • Að dreifa ljótum sögum um þig

Er andlegt ofbeldi virkilega ofbeldi?

Samband getur verið óheilbrigt og ofbeldisfullt án þess að það leiði nokkurn tíma til líkamlegs ofbeldis. Andlegt ofbeldi veldur tilfinningalegum skaða og sárum. Stundum verður ofbeldið svo slæmt að þú ferð að trúa því sem maki þinn segir. Þú ferð að halda að þú sért einskis virði, ljót og heimsk manneskja. Þú sannfærist jafnvel um að enginn annar myndi vilja vera í sambandi með þér því stöðug gagnrýni og niðurlæging brýtur niður sjálfsmyndina. Þú gætir jafnvel farið að kenna þér um ofbeldishegðun makans.

Mundu

Andlegt ofbeldi er aldrei þér að kenna. Ræddu aðstæður þínar við einhvern sem þú treystir – foreldri, vin eða kennara – eða talaðu við óháðan aðila, t.d. námsráðgjafa, skólasálfræðing, heilsugæsluna, ráðgjafa hjá samtökum sem berjast gegn ofbeldi eða félagsþjónustu.

sýna minna

Stafrænt ofbeldi

Stafrænt ofbeldi felst í notkun tækja og tækni, svo sem síma, tölvu og samfélagsmiðla, til að áreita, beita ofbeldi, ofsækja, niðurlægja eða ógna. Í heilbrigðu sambandi grundvallast samskiptin á virðingu, hvort sem þau fara fram í eigin persónu, á netinu eða í síma.

sýna meira

Það er aldrei ásættanlegt að hinn aðilinn geri eða segi eitthvað sem lætur þér líða illa, minnkar sjálfstraust þitt eða ráðskast með þig. Þú gætir verið að upplifa stafrænt ofbeldi ef maki þinn:

 • Segir þér til um hvern þú megir og megir ekki vingast við á Facebook og öðrum samfélagsmiðlum
 • Sendir þér neikvæð, lítillækkandi og jafnvel ógnandi skilaboð – hvort sem er á Facebook, í gegnum Twitter, með tölvupósti, í SMS-i, í einkaskilaboðum eða með öðrum samskiptaforritum á netinu.
 • Notast við samfélagsmiðla á borð við Facebook, Twitter, Instagram og SnapChat til þess að athuga stöðugt hvað þú ert að gera og með hverjum.
 • Gerir lítið úr þér í stöðuuppfærslum á sínum samfélagsmiðlum.
 • Sendir þér óumbeðnar, grófar myndir og/eða gerir kröfur um að fá slíkar myndir af þér.
 • Beitir þig þrýstingi til að senda nektarmyndir eða myndbönd af þér eða taka þátt í grófu samtali.
 • Stelur eða heimtar að fá lykilorðin þín að samfélagsmiðlum.
 • Sendir endalaus skilaboð og lætur þér líða eins og þú getir ekki verið án símans af ótta við að vera refsað.
 • Lítur reglulega í gegnum símann þinn, skoðar myndirnar þínar, skilaboð sem þú hefur fengið og símtöl sem þú hefur hringt.
 • Taggar þig á óvingjarnlegum, móðgandi eða niðurlægjandi myndum á Instagram, Tumblr, o.s.frv.
 • Notar einhvers konar tækni (t.d. GPS í bíl eða á síma) til þess að fylgjast með þér

Þú átt aldrei skilið að komið sé illa fram við þig, hvorki á netinu né í raunheimum. Mundu að:

 • Makinn á að virða þín mörk.
 • Það er allt í lagi að slökkva á símanum. Þú átt rétt á að verja tíma út af fyrir þig og vera með fjölskyldu og vinum án þess að makinn reiðist.
 • Þú þarft ekki að senda myndir eða skilaboð (sexting) sem þér líður óþægilega með – þá sérstaklega þegar nektarmyndir eru annars vegar.
 • Það er aldrei þér að kenna ef einhver brýtur á trausti þínu og dreifir myndum af þér án leyfis.
 • Þú þarft ekki að deila lykilorðunum þínum með neinum.
 • Stilltu aðganginn þinn að samfélagsmiðlum eins og þér líður best með. Miðlar eins og Facebook og Instragram gera notandanum kleift að stjórna því hvaða upplýsingum er deilt með öðrum og hver hefur aðgang að þeim.
 • Gættu að þér þegar notast er við „check-ins“ á vefsíðum eins og Facebook eða foursquare og spurðu líka vini þína hvort það sé í lagi að þú taggir þau.

Mundu

Stafrænt ofbeldi er aldrei þér að kenna. Ræddu það sem gerðist við einhvern sem þú treystir – foreldri, vin eða kennara. Þú gætir líka talað við óháðan aðila, t.d. námsráðgjafa, skólasálfræðing, heilsugæsluna, ráðgjafa hjá samtökum sem berjast gegn ofbeldi eða félagsþjónustu.

sýna minna

Líkamlegt ofbeldi

Líkamlegt ofbeldi er vísvitandi snerting án samþykkis eða vanvirðing við persónuleg mörk þín. Stundum er líkamlegt ofbeldi ekki sársaukafullt og skilur ekki eftir sig marbletti, en getur samt haft mikil áhrif á líðan þína.

sýna meira

Dæmi um líkamlegt ofbeldi

 • Að klóra, bíta, kyrkja, sparka og kýla
 • Að henda einhverju í átt að þér, svo sem síma, bók, skó eða disk
 • Að toga í hárið á þér
 • Að toga í þig eða ýta þér
 • Að grípa í fötin sem þú ert í
 • Að notast við hníf, kylfu eða önnur vopn
 • Að slá í rassinn á þér án samþykkis þíns eða leyfis
 • Að neyða þig til að framkvæma kynferðislegar athafnir
 • Að grípa í andlit þitt og neyða þig til að horfa framan í manneskjuna
 • Að grípa í þig til að hindra að þú farir eða til að þvinga þig til þess að fara eitthvert sem þú vilt ekki

Að losna undan líkamlegu ofbeldi

Þú þarft ekki að takast á við málið á eigin spýtur. Ef þú ert í svona aðstöðu skaltu:

 • Muna að þessi hegðun er röng.
 • Tala við aðila sem þú treystir; fullorðinn einstakling, vin eða fjölskyldumeðlim.
 • Panta viðtal hjá einhverjum sem getur aðstoðað, t.d. námsráðgjafa, skólasálfræðingi, heilsugæslunni, samtökum sem berjast gegn ofbeldi eða félagsþjónustu.
 • Ekki samþykkja eða afsaka ofbeldi maka þíns.
 • Muna að líkamlegt ofbeldi er aldrei þér að kenna.
sýna minna

Ofsóknir

Ef einhver eltir þig, fylgist með þér eða áreitir þig ítrekað er verið að ofsækja þig. Sá sem ofsækir þig getur verið aðili sem þú þekkir, fyrrum maki eða ókunnug manneskja.

sýna meira

Hér eru dæmi um ofsóknir:

 • ‍Mætir upp að dyrum hjá þér eða á vinnustað óumbeðinn og án þess að láta vita fyrirfram
 • Sendir þér óumbeðin skilaboð, bréf, tölvupósta eða talhólfsskilaboð
 • Skilur óumbeðna hluti eftir handa þér – gjafir eða blóm
 • Hringir endalaust í þig og skellir síðan á
 • Notast við samfélagsmiðla og tækni til að fylgjast með þér og tékka á staðsetningu þinni
 • Dreifir orðrómi um þig á netinu eða slúðrar um þig
 • Hringir óumbeðinn í þig
 • Hringir í yfirmann þinn, samstarfsfélaga, kennara eða vini
 • Heldur sig á þeim stöðum sem hann veit að þú sækir oft
 • Notar annað fólk sem uppsprettu upplýsinga um þig og líf þitt. Skoðar til dæmis Facebook-síðu þína í gegnum aðgang hjá þriðja aðila eða vingast við vini þína til þess að nálgast frekari upplýsingar um þig
 • Eyðileggur eigur þínar – bíl, heimili o.s.frv.

Hvað ef einhver er að ofsækja mig?

Ef þú ert þolandi ofsókna er líklegt að þú finnir fyrir mikilli streitu, kvíða eða vanmætti. Þú gætir einnig átt í vandræðum með svefn eða einbeitingu í skóla eða vinnu. Mundu að þú þarft ekki að takast á við málið á eigin spýtur. Ef þú telur þig í hættu skaltu hringja tafarlaust í 112 og fá aðstoð lögreglu.

Það gæti reynst gagnlegt að geyma sönnunargögn til þess að styrkja mál þitt - svo sem:

 • SMS eða skilaboð í gegnum samfélagsmiðla
 • Talhólfsskilaboð
 • Myndbönd
 • Bréf, myndir og kort
 • Óumbeðna hluti eða gjafir sem þér hafa borist
 • Vinabeiðnir á samfélagsmiðlum
 • Tölvupóst

Það er líka gott að skrifa niður tímasetningar, staðsetningar og dagsetningar allra atburða sem tengjast þessum ofsóknum. Ef þú getur skaltu líka skrifa niður nöfn og upplýsingar um fólk sem varð vitni að ofsóknunum.

Að verða fyrir ofsóknum er streituvaldandi. Þú gætir upplifað martraðir, svefnleysi, þunglyndi eða fundist þú ekki hafa neina stjórn lengur á eigin lífi. Þessi viðbrögð eru eðlileg. Það getur reynst hjálplegt að segja vinum eða fjölskyldumeðlimum frá ástandinu og fá aðstoð frá hjálparsamtökum til að vinna úr afleiðingunum.

sýna minna

Fjárhagslegt ofbeldi

Fjárhagslegt ofbeldi getur til dæmis falist í því að makinn ákveður hvað þú mátt og mátt ekki kaupa, eða skyldar þig til að hleypa honum inn á bankareikninginn þinn. Enginn hefur rétt á að nota þína peninga eða stjórna því hvernig þú ráðstafar þeim, jafnvel þótt þið eigið í ástarsambandi.

sýna meira

Dæmi um fjárhagslegt ofbeldi

 • Að gefa þér „vasapening“ og fylgjast svo náið með því hvað þú kaupir
 • Að millifæra launin þín inn á sinn bankareikning og neita þér um aðgang að honum
 • Að koma í veg fyrir að þú sjáir upplýsingar um sameiginlega bankareikninga
 • Að banna þér að vinna eða takmarka vinnutíma þinn
 • Að koma í veg fyrir að þú komist í vinnuna með því að taka af þér bíl eða bíllykla
 • Að verða til þess að þú missir vinnuna með því að áreita þig, samstarfsmenn þína eða yfirmenn
 • Að fela eða eyðileggja reikningana þína
 • Að taka lán í þínu nafni án þíns leyfis
 • Að versla með kreditkortinu þínu án þíns leyfis
 • Að færa þér gjafir eða borga fyrir þig mat og búast við einhvers konar greiða frá þér í staðinn
 • Að nota peninga til að stjórna þér því þú hefur ekki eins mikið á milli handanna

Ég upplifi fjárhagslegt ofbeldi

Ef þú kannast við það að maki þinn beiti einhverjum af þeim aðferðum sem taldar voru upp gætir þú verið í óheilbrigðu eða ofbeldisfullu sambandi. Fjárhagslegt ofbeldi fléttast oft saman við líkamlegt og/eða andlegt ofbeldi. Ef þú hefur ekki stjórn á þínum eigin fjármunum, eða makinn hefur fjarlægt peninga af bankareikningi þínum, gæti þér fundist erfitt að yfirgefa sambandið.

Það er hjálplegt að ræða málið við einhvern sem þú treystir, líkt og vin eða fjölskyldumeðlim. Þá gæti verið gagnlegt að tala við óháðan aðila, t.d. námsráðgjafa, skólasálfræðing, lögfræðing, samtök sem berjast gegn ofbeldi eða félagsþjónustu.

sýna minna